Lýsing tapaði máli

Vinnuvélar á geymslusvæði við Hafnarfjarðarhöfn.
Vinnuvélar á geymslusvæði við Hafnarfjarðarhöfn. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Lýsing tapaði máli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem Smákranar höfðuðu gegn fyrirtækinu. Snérist málið um hvort um lánssamning væri að ræða sem aðilar málsins höfðu gert sín á milli eða leigusamning. Er það niðurstaða dómara að samningurinn sé lánssamningur og því þarf Lýsing að greiða Smákrönum tæplega 1,1 milljón króna og tvær milljónir króna í málskostnað.

Sambærilegt mál þó önnur hugtök séu notuð

Í niðurstöðu dómsins er vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli Íslandsbanka gegn þrotabúi AB 258 ehf.  Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að umræddur samningur væri lánssamningur.

„ Í samningi þeim sem hér er til umfjöllunar eru oft og tíðum notuð önnur hugtök en í samningi Íslandsbanka hf. Þó er um efnislega sambærileg ákvæði að ræða. Aðstæður samningsaðila voru sambærilegar það er að segja, að í báðum tilvikum áttu fyrirtækin (Hreinsun og tæki ehf./stefnandi og Kraftvélar ehf.) frumkvæðið að kaupum á vélunum og annaðist stefnandi innflutning þeirra og greiddi aðflutningsgjöldin. Stefnandi leitaði einungis til stefnda um fjármögnun á hluta verðsins.

Hinn umdeildi samningur málsaðila er ekki svo skýr sem skyldi, fremur en samningur sá er lá fyrir í Hæstaréttarmálinu nr 282/2011. Samkvæmt 3. gr. samningsins er Hreinsun og tæki ehf. (nú stefnandi) tilgreint sem seljandi þótt samningurinn sé ekki um kaup samkvæmt heiti hans. Í 2. gr. samningsins er leigugrunnur tilgreindur 6.100.000 kr. og að viðbættum virðisaukaskatti samtals 7.594.500 kr. Í samningi Íslandsbanka hf. er talað um kaupverð eða samningsfjárhæð. Þessi hugtök skipta ekki máli, því í báðum tilvikum er verið að tala um höfuðstólinn. Þegar um leigusamninga er að ræða þarf ekki að tilgreina höfuðstól, en slíkt þarf eðli máls samkvæmt að gera í lánssamningum eins og gert er í samningnum. Í samningi Íslandsbanka hf. er bæði upphaf vaxta og gengið miðað við útborgunardag eins og segir í samningum. Í 10. gr. samnings stefnda er upphaf vaxta og gengis miðað við samningsdag sem er 30. október 2007. Fyrir liggur að þann dag var lánið borgað út. Því er hér um sama atriði að ræða, en önnur hugtakanotkun. Þessi ákvæði samrýmast mun betur lánasamningum en leigusamningum," segir í niðurstöðu dómsins í dag.

Lýsing segir samningana ekki sambærilega

Í tilkynningu sem Lýsing sendi frá sér í október vegna dóms Hæstaréttar kemur fram að Lýsing vilji taka fram að samningur Íslandsbanka sé í veigamiklum atriðum frábrugðinn fjármögnunarleigusamningum Lýsingar. „Af þeim sökum getur Lýsing ekki litið á niðurstöðu dómsins sem fordæmi vegna fjármögnunarleigusamninga sinna.

Í máli sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur reynir á lögmæti gengistryggingar fjármögnunarleigusamnings Lýsingar og verður aðalflutningur málsins þann 16. nóvember n.k. Má gera ráð fyrir dómsuppkvaðningu í byrjun desember. Verði héraðsdómi áfrýjað til Hæstaréttar, ætti endanleg niðurstaða að liggja fyrir fyrri hluta næsta árs.

Að mati Lýsingar eru samningar félagsins um fjármögnunarleigu skýrir leigusamningar en ekki lánasamningar og falla þar af leiðandi ekki undir gildissvið vaxtalaga og þann skilning Hæstaréttar að lögin banni gengistryggingu lána. Samningarnir eru ólíkir bílasamningum og öðrum kaupleigusamningum sem meirihluti Hæstaréttar telur sambærilega umþrættum samningi Íslandsbanka. Verða málsástæður Lýsingar skýrðar ítarlega við aðalmeðferð dómsmálsins þann 16. nóvember n.k.

Sú óvissa sem skapast hefur um einstaka samninga og samningsform í kjölfar dóma Hæstaréttar um bílasamninga frá því í júní 2010 er bagaleg bæði fyrir viðskiptavini Lýsingar og félagið sjálft. Lýsing vonast til þess að óvissu vegna þessara mála verði lokið sem allra fyrst," segir í tilkynningu Lýsingar frá því í október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka