Tap á rekstri Sjálfstæðisflokksins í fyrra nam 110,5 milljónum króna, samkvæmt útdrætti úr samstæðureikningi sem birtur er á vef Ríkisendurskoðunar. Tap á rekstri Samfylkingarinnar í fyrra nam 6,8 milljónum samkvæmt samstöðureikningi. VG var rekið með 14,3 milljóna hagnaði í fyrra.
Ríkisendurskoðun birtir á síðu sinni útdrátt úr ársreikningum stjórnmálaflokka og nokkurra staðbundinna framboða fyrir árið 2010. Meðal annars eru birt nöfn allra lögaðila sem hafa styrkt flokkana með fjárframlögum.
Tekjur Sjálfstæðisflokksins í fyrra voru 250,7 milljónir og höfðu lækkað frá árinu áður þegar þær voru nærri 306 milljónir. Mestu munaði um lækkun ríkisframlaga á milli ára en þau lækkuðu úr 158,7 milljónum árið 2009 í 98,9 milljónir í fyrra.
Tekjur Samfylkingarinnar í fyrra voru 174,2 milljónir en 173,8 milljónir árinu áður. Ríkisframlög til flokksins hækkuðu lítillega á milli ára og voru 117,9 milljónir í fyrra en 115,5 milljónir árinu áður.
Tekjur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs (VG) voru samtals 124,2 milljónir í fyrra og höfðu hækkað úr 101,5 milljónum árið 2009. Ríkisframlög til flokksins í fyrra voru 85,7 milljónir en voru 64,2 milljónir árið 2009.
Ríkisendurskoðun gerir þá athugasemd að innbyrðis viðskipti á milli aðalstjórnar og aðildarfélaga VG hafi ekki verið jöfnuð út. Því séu tekjur
og gjöld tilgreind hærri í ársreikningnum en ella.
Hagnaður var af rekstri þinghóps Hreyfingarinnar í fyrra upp á 1,8 milljónir en hagnaðurinn nam 570 þúsund krónum árið 2009.
Einu tekjur Borgarahreyfingarinnar í fyrra voru ríkisframlög og námu þau alls 24,9 milljónir. Tekjur Borgarahreyfingarinnar 2009 voru 1,7 milljónir. Hagnaður var af rekstri flokksins upp á 11,2 milljónir í fyrra en tap var af rekstrinum 2009 upp á 6,7 milljónir.
Skuldir og eigið fé Sjálfstæðisflokksins voru 682,3 milljónir í fyrra en 704,4 milljónir árið 2009. Skuldir og eigið fé Samfylkingarinnar voru 133,1 milljón í fyrra en 136,8 milljónir árið 2009. Skuldir og eigið fé VG voru 64,3 milljónir í fyrra en 70,2 milljónir árið 2009.
Eigið fé þinghóps Hreyfingarinnar nam 2,1 milljón í árslok 2010 og skuldir og eigið fé voru 2,4 milljónir en höfðu verið 500 þúsund í árslok 2009. Skuldir og eigið fé Borgarahreyfingarinnar nam 4,7 milljónum í árslok 2010 en var tæpar 19 þúsund krónur í árslok 2009.
Tekjur Besta flokksins voru 7,9 milljónir í fyrra og munaði mest um framlag Reykjavíkurborgar upp á rúmar sex milljónir króna. Rekstrargjöld flokksins voru 10,9 milljónir og því tap upp á tæplega 3,1 milljón króna.