Vita ekki hvaða gögn lögreglan er með

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. mbl.is/Ómar

„Sakborningar vita ekki hvaða gögn lögreglan er með í höndum og því mikilvægt að þeir geti ekki borið sig saman og samræmt framburð,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari þegar hann er spurður hvers vegna farið sé fram á gæsluvarðhald yfir mönnum sem tengjast Glitnis-rannsókninni.

Héraðsdómur úrskurðaði í gær þrjá menn í gæsluvarðhald. Ólafur sagði að tveir þeirra hefðu kært úrskurðinn til Hæstaréttar, en hann sagði ekki útilokað að kærurnar yrðu þrjár.

Ólafur sagði að yfirheyrslur hefðu staðið fram að miðnætti í gær og þær hefðu haldið áfram í morgun. Hann vill ekki greina frá því hversu margir hafi verið yfirheyrðir, en stór hópur manna hjá embættinu sinnti rannsókn þessara mála.

Ólafur sagði að menn færu að sjálfsögðu ekki fram á gæsluvarðhald nema ástæða væri til þess. Níu af tíu málum sem tengjast Glitni hefðu verið kærð til embættis sérstaks saksóknara á þessu ári og yngsta málið væri aðeins nokkurra vikna gamalt.

Ólafur sagði að þegar menn væru að undrast að verið væri að hneppa menn í gæsluvarðhald löngu eftir bankahrun yrði að hafa í huga að sakborningar vissu ekki hvaða gögn rannsakendur væru með í höndunum. Þeir vissu því ekki hvaða spurningum þeir kæmu til með að þurfa að svara. Það væri mikilvægt að geta komið í veg fyrir að sakborningar gætu samræmt framburði en það gæti augljóslega spillt fyrir rannsókninni. Þess vegna væri farið fram á gæsluvarðhald meðan verið væri að yfirheyra vegna þessara mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert