Bændur á Vestfjörðum eru afar ósáttir við að MS leggi niður starfsemi sína á Ísafirði. Kom þetta fram á fjölsóttum bændafundi sem var haldinn á Hótel Ísafirði í gær. Vestfirskir bændur hafa áhyggjur af hvert stefnir með mjólkuriðnaðinn í landinu segir á vefsíðu bbl.is.
Töldu fundarmenn afar sérkennilegt að MS, sem fyrirtæki bænda, væri í nafni hagræðingar beinlínis farið að vinna gegn hagsmunum landsbyggðarinnar og bænda sem þar starfa. Slíkt hlyti á endanum að koma í bakið á MS. Kom fram á fundinum að menn óttast að ekki verði látið staðar numið við að leggja niður starfsemina á Ísafirði. Bent var á að vinna væri þegar hafin við að leggja líka niður starfsemi MS í Búðardal. Töldu fundarmenn að full þörf væri á að sporna við þessari þróun og að MS fengi alvöru samkeppni á markaðnum. Slíkt hefði einmitt gerst við svipaðar markaðsaðstæður í Noregi og Svíþjóð.
ATHUGASEMD sett inn klukkan 17:52
Einar Sigurðsson, forstjóri MS, segir að alls ekki standi til að leggja niður starfsemi MS í Búðardal heldur hafi verið settur hálfur milljarður króna í að byggja upp ostaframleiðsluna þar enn frekar. Eins hafi verið hagrætt á ýmsan hátt í rekstrinum þar. Aftur á móti hafi pökkun á mjólk verið hætt á Ísafirði í vor þar sem mjög litlu var pakkað af mjólk þar. Mjólkurpökkun hafi ekki verið tekin þar upp á ný.