Blekkja fólk með fjölbreyttum hætti

Reuters

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ítrekar fyrri viðvaranir varðandi tilraunir til fjársvika þar sem erlendir aðilar reyna með margvíslegum hætti að blekkja fólk hér á landi  í því skyni að hafa af því fé. 

Fram kemur í tilkynningu að reglulega berist lögreglu kærur þar sem óprúttnum aðilum hafi tekist að fá fólk til þess að senda peninga á milli landa á grundvelli ýmissa viðskipta sem síðan reynist blekking ein. Það sem þessi atvik eigi sameiginlegt í flestum tilvikum sé að óskað sé eftir því að peningarnir séu sendir milli landa í gegnum Western Union, MoneyGram eða sambærileg peningaflutningafyrirtæki. Sjaldnast sé beðið um venjulegar bankamillifærslu SWIFT eins og tryggast sé að haga slíkum peningaflutningi. 

Þau tilvik sem algengast er að berist á borð lögreglu eru eftirfarandi;

  • Ýmis þjónusta s.s. gisting og ferðatengd starfsemi þar sem er pantað og greitt fyrirfram með þeim hætti að gefa upp greiðslukortanúmer.  Stuttu síðar er síðan hætt við pöntunina en söluaðilanum boðið að halda eftir hluta greiðslu en senda restina til kaupanda í gegnum peningaflutningaþjónustu.  Líklegast um að ræða stolið greiðslukortanúmer og færslan verður þá síðar bakfærð að öllu leyti þar sem tjónið lendir á seljanda þjónustunnar.
  • Kauptilboð í ýmsa muni sem auglýstir eru á smáauglýsingavefjum landsmanna og skiptir þar engu hvort auglýstir eru hestar, bílar, húsgögn, bækur eða þjónusta.  Kaupandi getur virst hafa þekkingu og áhuga á því sem hann er að kaupa en þegar kemur til greiðslu þá er oftast sendur falsaður erlendur tékki sem hljóðar upp á mun hærri fjárhæð en umsamið kaupverð.  Skýringar á því geta verið ýmsar af hálfu kaupanda en seljandinn er beðinn um að innleysa tékkann í sínum viðskiptabanka og senda mismuninn til kaupanda í gegnum peningaflutningaþjónustu.  Með þessu er seljandinn blekktur til þess að innleysa falsaðan tékka og senda ágóðann til útlanda.
  • Erlendir auglýsingavefir þar sem leiguhúsnæði er á boðstólum hafa stundum verið Íslendingum skeinuhættir og ber þá sérstaklega að varast að senda ókunnum aðilum fyrirframgreiðslur fyrir húsaleigu í gegnum Western Union, MoneyGram eða sambærileg peningaflutningafyrirtæki. 

„Þá hafa lögreglu borist ábendingar frá erlendum lögregluliðum um vaxandi fjölda fjársvika í Vestur-Evrópu sem kölluð eru „Spanish Lottery Fraud“ en þau ganga út á það að fólk fær send bréf frá Spáni með tilkynningu um að það hafi unnið í happdrætti og gefin eru upp símanúmer og tölvupóstföng til þess að nálgast vinninginn.  Eru þetta svik náskyld þeim svikum sem kölluð hafa verið „Nígeríusvindl“ hér á landi.  Er fólki eindregið ráðið frá því að svara slíkum tilkynningum og alls ekki að freista þess að senda peninga á milli landa í því skyni að liðka fyrir að fá slíkan „vinning“ greiddan út,“ segir lögreglan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert