Fréttaskýring: Ekkert dregið úr neyðinni milli ára

Birgðir af jólamat eru til reiðu handa þeim sem krappast …
Birgðir af jólamat eru til reiðu handa þeim sem krappast standa. Við úthlutanir nefndarinnar starfa sjálfboðaliðar, um 20 eldri konur. mbl.is/Sigurgeir

Hjálparsamtök undirbúa nú úthlutanir til fátækra fyrir jólin, en á þessum tíma árs neyðast margir til að leita sér hjálpar sem alla jafna gera það ekki. Eftir efnahagshrunið hefur umfang hjálparstarfsins vaxið mjög enda hefur þörfin aukist og ekki virðist enn sjá fyrir endann á því.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, segir að óneitanlega sé nokkur kvíði hjá sjálfboðaliðunum 60 sem þar starfa fyrir álagstímanum sem nú fer í hönd. „Við erum svolítið kvíðin hvernig úr þessu spilast því nú þurfum við að flokka umsóknirnar og þá verðum við að forgangsraða. Í raun og veru rennum við blint í sjóinn.“

Misskiptingin gríðarleg

Skráning í jólaúthlutun Fjölskylduhjálpar stendur til 9. desember en nú þegar hafa 1.400 fjölskyldur skráð sig og er stór hluti þeirra að koma í fyrsta skipti að sögn Ásgerðar Jónu. Þrír hópar séu verst staddir; einstæðingar í hópi eldri borgara, öryrkjar sem búi við bág kjör og einstæðir foreldrar.

„Þessir hópar hafa alltaf verið til en maður sér að þegar þrengir að í þjóðfélaginu þá fjölgar í þeim, fólki sem bjó við mjög lök kjör fyrir og var komið alveg fram að bjargbrúninni en er núna farið fram af henni. Ég hef verið í þessu síðan 1996 og alveg sama þótt það sé góðæri á Íslandi þá hefur alltaf verið ákveðinn hópur sem býr við fátækt og hreina angist sem því fylgir.“

Spurð hvernig staðan sé nú miðað við sama tíma í fyrra segir hún þróunina síst hafa skánað. „Þegar ég lít yfir farinn veg finnst mér staðan oft hafa verið slæm, en hún er æpandi slæm núna. Misskiptingin er að verða svo gríðarleg.“

Þróunin ekki nógu góð

Ingibjörg Oddsdóttir, starfsmaður velferðarvaktar velferðarráðuneytisins, segir það alþjóðlega tilhneigingu að bilið á milli hinna efnuðustu og hinna efnaminnstu sé að breikka og þar sé Ísland líklega ekki undanskilið. Velferðarvaktin leggur mikla áherslu á að hugað sé að aðstæðum barna. Ingibjörg segir að þróunin undanfarið ár hafi ekki verið nógu góð. „Það hefur ekki slegið á atvinnuleysið eins og væntingar stóðu til. Það er stóri þátturinn því atvinnan er forsenda velferðarinnar. Það hefur ekki breyst að börnin sem stóðu veikt fyrir efnahagshrunið eru enn sá hópur barna sem stendur veikast.“ Sé litið til fjölda barna undir fátæktarmörkum standi Ísland svipað öðrum samfélögum sem kenni sig við velferð og komi þokkalega út. „En það þýðir ekki að það séu ekki erfiðleikar inni á heimilum, það er það víða.“ Viðkvæmasti hópurinn séu börn einstæðra foreldra og innflytjenda.

Öryrkjum og öldruðum fjölgar

Sífellt fleiri leita aðstoðar Fjölskylduhjálparinnar. Í fyrra voru um 3.000 manns á skrá á höfuðborgarsvæðinu en í ár eru skráningarnar orðnar hátt í 5.000. Ekki sækja þó allir sem eru á skrá úthlutun í hverjum mánuði.

Hjá Mæðrastyrksnefnd hefur einnig gætt aukningar á undanförnum árum. Ragnhildur Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, segir að áberandi fjölgun sé í hópi öryrkja og aldraðra, en einnig leiti nú hjálpar stærri fjölskyldur en áður. Fyrir síðustu jól úthlutaði Mæðrastyrksnefnd til um 4.000 fjölskyldna og einstaklinga og Ragnhildur býst ekki við að þörfin verði neitt minni í ár. „Við búum okkur undir að þetta skipti nokkrum þúsundum.“

Dýrmætt að geta gefið gjafir

Bæði er úthlutað matvælum sem og jólagjöfum. Fjölskylduhjálpin fær pakka sem safnað er í Smáralind og Kringlunni og segir Ásgerður Jóna að fólk sem hafi börn á framfæri byrji að spyrjast fyrir um gjafirnar strax í október. Á þessum tíma árs er fólki ekki síður mikilvægt að geta glatt ástvini sína með gjöfum en að fá mat, ef marka má Ragnhildi. „Það finnst mörgum gott að geta fengið gjafir hjá okkur fyrir barnabörnin og barnabarnabörnin. Það er það sem stendur upp úr finnst mér.“

Áhersla á valdeflingu

Hjálparstarf kirkjunnar hefur undanfarið breytt um áherslur í vinnuaðferðum í hjálparstarfi sínu innanlands og leggur nú aukna áherslu á valdeflingu einstaklingsins, að sögn Vilborgar Oddsdóttur, félagsráðgjafa hjá Hjálparstarfinu. Ekki þýði hins vegar aðeins að segja fólki að taka völdin í eigin hendur, heldur þurfi líka að gefa því tækin og styðja það til þess. Hjálparstarfið hafi m.a. boðið upp á ýmis námskeið, s.s. fjármálanámskeið, fjölskylduráðgjöf, matreiðslunámskeið o.fl.

„Eftir jól höldum við sérstakt valdeflingarnámskeið fyrir einstæðar mæður, þar sem við reynum að setja niður hvað þarf til að breyta aðstæðum þeirra og hvað þarf til að koma í veg fyrir að börnin þeirra lendi á sama stað í lífinu.“ Einnig hefur verið lögð áhersla á að skapa vettvang fyrir fátæka foreldra að eiga ánægjulega samverustund með börnum sínum, s.s. með gjafakortum í leikhús og í húsdýragarðinn. „Þegar það er fátækt og erfiðleikar á heimilinu er svo mikilvægt að stíga aðeins út úr því og eiga jákvæðar upplifanir saman,“ segir Vilborg. Þessar breyttu áherslur eru að evrópskri fyrirmynd, en Hjálparstarfið tók höndum saman við fleiri félagasamtök í sumar og stofnaði Íslandsdeild EAPN, evrópskra samtaka gegn fátækt.

Hjálparstarfið styrkir fólk með inneignarkortum í stað matarúthlutana. Margir sækja eingöngu um þá hjálp fyrir jólin. Um 400 umsóknir hafa nú borist um jólaúthlutun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert