„Það er fullt af peningum til sem hægt er að taka og setja í heilbrigðisþjónustuna,“ segir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG. Hún telur að í fjárlögum fyrir næsta ár sé of langt gengið í niðurskurði á þjónustunni og eingöngu þurfi pólitískan vilja til að draga úr niðurskurðinum.
Ríkisstjórnin kenni sig við norræna velferð og nú ríði á að standa við gefin loforð í þeim efnum. Alþingi mun taka fjárlög næsta árs til afgreiðslu í næstu viku og Guðfríður segir niðurskurðinn í heilbrigðisþjónustu víðsvegar um landið vera mikið hitamál innan þingflokks VG.