Huang Nubo segir vinnubrögð íslenskra stjórnvalda í máli sínu ófagleg. Hann hafi þó enn áhuga á að fjárfesta á Íslandi en ekki komi til greina að kaupa landið í gegnum fyrirtæki innan EES, það sé óvirðing við Íslendinga. Þetta kemur fram í viðtali Stöðvar 2 við Huang.
Innanríkisráðuneytið hafnaði í síðustu viku beiðni Huangs Nubos um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Huang segir íslensk stjórnvöld þurfa að koma fram við sig af sanngirni til þess að hann geti fjárfest á Íslandi.
Í viðtalinu var Huang spurður að því hvað þyrfti að gerast svo hann fjárfesti á Íslandi.
„Í fyrsta lagi þarf ég að njóta sanngirni. Þegar hafa verið veittar margar undanþágur til handa útlendingum en þegar ég, kínverskur einstaklingur, bið um slíkt er ekkert við mig talað, bara einföld neitun. Þetta er ekki réttlátt, ég bið einungis um sanngjarna meðferð. Auk þess ef upp hefðu komið einhverjar spurningar í málsmeðferðinni hefði verið hægt að leita til mín og ræða við mig. T. d.: Þarftu svona mikið land?, gætirðu hugsað þér að fjárfesta annarstaðar? eða værirðu til í að leigja landið sem þú þarft? Um öll þessi mál hefði verið hægt að ræða við mig. En ekki svona snubbótt að segja skyndilega að ég megi ekki koma. Þess utan var þessi ákvörðun tilkynnt opinberlega áður en mér var tilkynnt um þetta. Svona vinnubrögð get ég ekki skilið og sætti mig illa við."