Það var Gylfi Magnússon, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, en ekki Árni Páll Árnason eftirmaður hans, sem tók ákvörðun um hækkun launa vegna setu í stjórn Fjármálaeftirlitsins.
Fyrr í dag kom fram í frétt á mbl.is að kostnaður vegna launa þeirra sem sitja í stjórn Fjármálaeftirlitsins hefði verið hækkaður um 77% eða úr 13,5 milljónum í 24 milljónir. Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu var ákvörðunin tekin 1. september 2010, degi áður en Árni Páll tók við embætti efnahags- og viðskiptaráðherra. Hækkunin gilti frá 1. apríl það ár.
Bæði aðal- og varamenn í stjórn FME fá greidd stjórnarlaun. Launin skiptast því milli sex manna en ekki þeirra þriggja sem sitja í aðalstjórn.
Upplýsingar um hækkunina komu fram í greinargerð með frumvarpi sem Árni Páll lagði fram á Alþingi í dag.