Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri epli.is, furðar sig á þeirri ákvörðun tollstjóra að endurskilgreina iPod Nano sem útvarp. Það þýði að 25% vörugjald og 7,5% tollur muni leggjast á tækið. Verður farið með málið fyrir dómstóla.
Bjarni segir að ákvörðun tollstjóra þýði ennfremur að tónlistarmenn missi verulegan spón úr aski sínum þar sem ekki verði rukkað 4% höfundarréttargjald sem þeir hafi hingað til fengið af þessum tækjum.
„Þessi aðferðafræði tollstjóra er ólögleg og algerlega glórulaus og minnir um margt á vinnubrögð yfirvalda í vanþróuðum ríkjum sem við viljum síður vera borin saman við. Af hverju fór tollstjóri ekki alla leið með vitleysuna og ákvað bara að iPod Nano væri skrefateljari? Það hefði ekki verið óvitlausari ákvörðun en sú sem hann tók.
Stjórnendur epli.is ætla sér ekki að biðja úrskurðarnefnd tollamála um að úrskurða í þessu máli. Slíkt tæki u.þ.b. eitt ár og úrskurður félli að lokum tollinum í hag. Þetta er fullyrt í ljósi reynslunnar.
Stjórnendur epli.is ætla þess í stað að snúa sér beint til dómstóla með málið. Þar er einmitt mál af svipuðum toga til meðferðar um þessar mundir og dóms að vænta fljótlega,“ segir Bjarni í tilkynningu.
Þar segir ennfremur að Alþingi hafi nýverið samþykkt lög þar sem mismunun á innflutningi ýmissa tækja sé leiðréttur. Bjarni segir að iPod sé á meðal tækja sem falli undir þennan flokk. Hann bendir á að málaferli hafi staðið yfir á síðustu misserum vegna þessarar mismununar.
„Samkvæmt þessum nýju lögum eru ákveðnir tollflokkar lagðir niður og tækin sem þar voru sett í nýja flokka. Þetta þýðir, í stuttu máli, að enga tolla og vörugjöld skal í framtíðinni leggja á þessi tæki nema svokallaða höfundarréttarprósentu (4%).
Í kjölfarið fer tollstjórinn að vinna samkvæmt hinu nýju lögum og hvað gerir hann? Jú, hann ákveður að allar gerðir þessara spilara (iPod Shuffle, iPod Classic og iPod Touch) fari í nýju flokkana, nema einn,“ segir Bjarni og vísar til þess að tollstjóri hafi aðeins ákveðið að endurskilgreina iPod Nano.