Útgerðir makrílbáta í Noregi og Evrópusambandinu (ESB) geta sætt sig við það að Íslendingar veiði í mesta lagi 4% af sameiginlegum makrílkvóta í NA-Atlantshafi og Færeyingar 7%. Þetta kemur fram á fréttavef norskra útgerðarmanna, Fiskebåt.
Strandríki sem stunda makrílveiðar úr stofninum ætla að funda í Clonakilty á Írlandi í næstu viku á sínum þriðja fundi á þessu ári. Þar er ætlunin að ná samkomulagi um sameiginlega nýtingu makrílkvótans.
Norðmenn og ESB gerðu samkomulag í fyrra um heildarmakrílkvóta upp á 646.000 tonn. Samkvæmt ofangreindum hugmyndum yrði hlutur Íslendinga tæp 26.000 tonn en sem kunnugt er var ákveðið hér að kvóti okkar yrði tæplega 147.000 tonn.
Fiskebåt virðist telja að tilboð um 4% hlutdeild Íslendinga og 7% til Færeyinga sé rausnarlegt því í því felist tvöföldun á þeim makrílkvóta sem þessi lönd hafi fengið í sögulegu samhengi.
Þá er því mótmælt að byggja veiðihlutdeild á því í hvaða lögsögu makríllinn heldur sig, það sé hvorki sjálfbært né réttlátt, samkvæmt fréttatilkynningu Norðmanna og ESB sem vitnað er til.
Þá hrósa útgerðir í Noregi og ESB framkvæmdastjórn ESB fyrir harðar viðskiptaþvinganir vegna makrílveiða Íslendinga og Færeyinga.