Fangavarðafélag Íslands styður heilshugar stefnu Fangelsismálastofnunar um uppbyggingu fangelsiskerfisins, þar með nýtt fangelsi á Hólmsheiði. Kemur þetta fram í bréfi sem Fangavarðafélagið hefur sent þingmönnum og ráðherrum vegna umræðu síðustu daga um fangelsismál.
Fangavarðafélag Íslands segir nóg komið af töfum á þessu brýna verkefni og varar við því að Alþingi leggi stein í götu þessa framfaramáls eins og ráða megi af fréttum. „Við fylgjumst með framvindunni og munum ekki taka því þegjandi ef þessi áform verða stöðvuð eina ferðina enn. Að sjálfsögðu viljum við líka áframhaldandi uppbyggingu á Litla Hrauni á komandi árum. En þetta eru ekki valkostir. Hólmsheiðina strax einsog lagt hefur verið upp með, síðan/og jafnframt uppbyggingu á Litla Hrauni. Þetta er mjög eindreginn vilji félagsins,“ segir í bréfinu sem Einar Andrésson, formaður Fangavarðafélags Íslands, ritar undir.