Samþykki rammasamning um fjárhagsaðstoð

Reuters

Utanríkisráðherra hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um samþykkt rammasamnings milli íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Nánar tiltekið um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB (IPA).

Fram kemur að með þingsályktunartillögunni sé leitað eftir heimild Alþingis til að samþykkja rammasamninginn sem hafi verið undirritaður 8. júlí sl.

Segir að samningurinn sé gerður í samræmi við regluverk ESB og fjalli í stórum dráttum um viðtöku IPA-styrkja og eftirlit með ráðstöfun þeirra, en sams konar samningur hafi verið gerður við öll ríki sem sótt hafi um aðild að ESB eftir 1994, auk Tyrkja.

Í athugasemdum við þingsályktunartillöguna segir eftirfarandi:

„Samningurinn gerir ráð fyrir að öll aðstoð renni óskipt til þeirra verkefna sem þeim er ætlað að styðja. Enginn hluti IPA-aðstoðar rennur því til að greiða skatta eða önnur opinber gjöld og mun fjármálaráðherra leita eftir viðeigandi breytingum á skattalögum í því skyni með sérstöku frumvarpi.    

Það er venja að alþjóðastofnanir gera samninga við yfirvöld þeirra ríkja (gistiríkja) sem þær eru staðsettar í. Þessir samningar kveða á um friðhelgisréttindi, t.d. um friðhelgi skrifstofuhúsnæðis, útsendra starfsmanna og undanþágur frá tollum, sköttum og öðrum opinberum gjöldum. Þetta er grundvallarregla í milliríkjasamskiptum sem byggist á gagnkvæmni. Hún gerir starfsemi sendiskrifstofa, alþjóðastofnana og ýmiss konar alþjóðlega aðstoð, þ.m.t. þróunaraðstoð, greiðari og ódýrari.    

Samningurinn byggist á þessum sömu grundvallarsjónarmiðum. Þannig skulu einstaklingar sem ekki eru búsettir hér á landi en samið er við um að veita þjónustu eða vinnu sem fjármögnuð er af IPA-aðstoð ekki greiða tekjuskatt hér á landi af starfi sem unnið er á grundvelli slíks samnings. Að meginstefnu er því hér um að ræða sams konar réttindi og skyldur og almennt gilda gagnvart tæknilegu starfsliði sendiráða og alþjóðlegra stofnana sem hér starfa. Hinu sama gegnir um önnur opinber gjöld.    

Þá eru í samningnum ýmsar heimildir til að hafa eftirlit með því hvernig styrkjunum er varið. Þar er um að ræða sams konar eftirlit og endurskoðun á ráðstöfun fjármuna úr áætlunum ESB sem Ísland hefur veitt viðtöku á grundvelli EES-samningsins síðastliðin 18 ár.“

Skattleysi gagnrýnt

Eins og kemur fram að ofan er tekið fram að ætlast sé til að öll aðstoð hverju sinni renni óskipt til þess verkefnis sem henni er úthlutað og því sé ætlast til að hún sé undanþegin sköttum og opinberum gjöldum. Vísað er til frumvarps þess efnis sem fjármálaráðherra hefur lagt fram um skattleysi aðstoðarinnar. Hefur frumvarpið sætt gagnrýni stjórnarandstæðinga vegna skattleysisákvæða auk þess sem þrír þingmenn Vinstri grænna gerðu fyrirvara við þau.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert