Vilja fresta flutningi á Klepp

Kleppsspítali.
Kleppsspítali. mbl.is/Sverrir

Nokkrir þingmenn lögðu til í dag að flutningi réttargeðdeildar frá Sogni og á Klepp yrði frestað um eitt ár. Tíminn yrði notaður til að fá álit sérfræðinga á hvar starfseminni yrði best fyrir komið. Velferðarráðherra sagði að fyrir lægi álit sérfræðinga, Geðhjálpar sem styddu flutninginn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, lagði til á Alþingi í dag að flutningi réttargeðdeildar frá Sogni yfir á Klepp yrði frestað um eitt ár og óháðir sérfræðingar fengnir til að meta hvar starfseminni yrði best fyrir komið. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði að fyrir lægi álit sérfræðinga í geðlækningum, Geðhjálpar og fagdeildar geðhjúkrunarfræðinga um að betra væri að
hafa þessa starfsemi á Kleppi.

Fjallað var um flutning réttargeðdeildarinnar í sérstakri umræðu á Alþingi í dag. Málshefjandi var Sigurður Ingi.

Mælt með Sogni í skýrslu frá 2006

Sigurður Ingi minnti á að fyrir lægi skýrsla starfshóps frá 2006 sem mælt hefði með því að ráðist yrði í frekari uppbyggingu á Sogni. Í starfshópnum hefðu setið tveir sérfræðingar úr heilbrigðisráðuneytinu, framkvæmdastjóri Heilbrigðstofnunar Suðurlands og yfirlæknirinn á Sogni.

Síðan hefði það allt í einu gerst, vegna niðurskurðar, að ákveðið hefði verið að færa starfsemina á Klepp. Stofnkostnaður við flutningin væri 70-80 milljónir og „meintur sparnaður“ væri 40 milljónir. Hann spurði hvort ráðherrann þekkti ekki niðurstöðuna frá 2006 og spurði hvort menn vildu að pólitískt mat forstöðumanna innan heilbrigðiskerfisins - og þá væri hann ekki að ræða um flokkapólitík - ætti að ráða staðsetningunni. Málið þyrfti meiri undirbúning og fara yrði varlega í breytingar en um málið hefði ekki verið fjallað af varfærni.

Staðsetningin lengi verið umdeild

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra minnti á að fyrir 20 árum hefði staðið mikill styrr um stofnun réttargeðdeildar á Sogni. Við valið á staðsetningu hefði verið gengið gegn ráðleggingum eina menntaða réttargeðlæknisins á landinu sem hefði sagt upp störfum í kjölfar þess að Sogn varð fyrir valinu. Á hinn bóginn hefði þáverandi yfirlæknir á Kleppi ekki talið að meðferð almennra sjúklinga og ósakhæfra afbrotamanna færi saman. Þá hefði verið talið að umhverfi í dreifbýli væri mannbætandi og fjarlægð frá þéttbýli af hinu góða.

Guðbjartur sagði að síðan þá hefðu öll nálæg lönd fallið frá því að hafa réttargeðdeildir í dreifbýli, fjarri almennum geðdeildum. Deildirnar hefðu verið fluttar inn á eða að almennum deildum. Hann sagði einnig að lengi hefðu legið fyrir óskir um þennan
flutning. Fagleg rök vægju þyngst en einnig væri gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður minnkaði um 45 milljónir á ári.

Hann benti einnig á að Evrópunefnd gegn pyntingum og ómannúðlegri meðferð hefði gert athugasemd árið 1999 við starfsemina á Sogni. Geðhjálp hefði í skýrslu árið 2008 lýst miklum áhyggjum af Sogni. Vísaði ráðherrann í fleiri álit í þessa veru. Þá hefði sérstakt mat verið gert í byrjun árs 2011 og þá hefði niðurstaðan verið sú að nauðsynlegt væri að flytja starfsemina á Klepp. Þetta mat, sem kæmi fram á minnisblaði, hefði legið fyrir frá því í janúar.

Guðbjartur sagði að stofnkostnaðurinn myndi vinnast upp á tiltölulega skömmum tíma. Síðar í umræðunni sagði ráðherrann að árangurinn af starfseminni á Sogni væri ekki eins afdráttarlaus og sumir vildu meina. Það væri rétt að einstaklingar hefðu ekki komið inn á réttargeðdeildina aftur. „En hvað varð um þessa einstaklinga,“ spurði ráðherrann og kvaðst vonast eftir skýrslu um það.

Slæm framkoma við starfsmenn

Ragnheiður Elín Árnadóttir, Sjálfstæðisflokki, sagði að ákvörðun um flutning hefði ekki verið tekin af varfærni og yfirvegun, heldur í miklum flýti, a.m.k. horfði málið þannig við þeim sem sinntu þjónustunni og nytu hennar. Hún spurði hvers vegna starfsfólki voru ekki kynntar þessar niðurstöður og það haft með í ráðum. Hún kvaðst ekki gera lítið úr faglegum sjónarmiðum, en skildi ekki að árið 2006 hefði verið gerð úttekt þar sem komist var að gagnstæðri niðurstöðu. Engin fagleg úttekt hefði verið gerð á flutningnum nú. Þess vegna stæðu 11 þingmenn fyrir ósk um að slík úttekt verði gerð.

Ragnheiður bætti við að hún gæti gæti ekki látið hjá líða að nefna framkomuna við starfsfólkið. Þeim hefði verið tjáð að þau gætu fengið störf á nýrri deild en sérstaklega hefði verið tekið fram að þau fengju ekki greitt fyrir akstur til og frá vinnu og að þau gætu ekki ekið til vinnu á vinnutíma. Á hinn bóginn fengju læknar sem kæmu á Sogn bifreið frá Landspítalanum. Hún sagði að að þessu leyti væri munur á því hvort stofnun væri færð til eða frá Reykjavík.

Geðhjálp gagnrýndi Sogn 

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, áréttaði að á þessi mál mætti ekki líta sem atvinnuspursmál. Spurning væri hvort hægt væri að gera betur við þann hóp sem þarf að vistast á réttargeðdeild.

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, vísaði til þess að Geðhjálp hefði um áraraðir barist fyrir því að réttargeðdeildinni að Sogni yrði lokað. Í ályktun frá Geðhjálp hefði m.a. verið rætt um algjöra vanhæfni deildarinnar til að endurhæfa geðsjúka brotamenn. Fagdeild geðhjúkrunarfræðinga hefði líka lýst yfir stuðningi við flutning réttargeðdeildar á Klepp. Þessi sjónarmið og fundur með stjórnendum geðsviðs Landspítalans hefði sannfært hana um að hann ætti rétt á sér. „Og hann styð ég þrátt fyrir að vera tíundi þingmaður Suðurkjördæmis,“ sagði hún. Hagsmunir sjúklinga yrðu að vera í fyrirrúmi.

Sigurður Ingi, málshefjandi, kvaddi sér hljóðs á nýjan leik og sagði að dylgjur um annarleg sjónarmið þingmanna Suðurkjördæmis í fangelsismálum og málum réttargeðdeildarinnar væru ósmekkleg. Hann vísaði einnig til góðs árangurs á Sogni, en enginn þeirra sem hefði flust þaðan hefði aftur hlotið dóm.

Ferðakostnaður starfsmanna 200.000 krónur

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði umræðuna vandmeðfarna. Þau andmæli sem hefðu komið fram gegn flutningi hjá þingmönnum úr mörgum kjördæmum væru mjög málefnaleg. Hann studdi að ráðist yrði í aðra faglega úttekt á flutningnum og ítrekaði að hagsmunir sjúklinga yrðu hafðir í fyrirrúmi.

Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að það ætti ekki að vera háð dagskipun hvar heilbrigðisþjónusta er veitt. „Það er dagur og nótt munurinn á sálarheill að búa við heimilisbrag,“ sagði hann. Heimilisbragurinn væri einn af lykilkostunum við Sogn. Árangur þar hefði verið einkar góður. Nú væri verið að gera atlögu að Sogni. „Þetta er aðför að starfsfólki og vistmönnum,“ sagði Árni og bætti við að ferðakostnaður starfsmanna yrði 200.000 krónur á mánuði.

Fleiri þingmenn tóku til máls í umræðunni en hana er hægt að hlusta á á vef Alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert