Lögregla höfuðborgarsvæðisins lagði hald á talsvert magn vopna í gær, eftir húsleit hjá karlmanni á fertugsaldri, búsettum í Breiðholti. Um var að ræða sjö skotvopn, fjóra hnífa, sverð og mikinn fjölda skothylkja. Að sögn lögreglu er maðurinn skráður fyrir hluta skotvopnanna en ekki öllum. Í dag lagði lögregla svo hald á tvö skotvopn til viðbótar sem geymd voru á heimili ættingja mannsins, en í eigu hans.
Upphaf málsins má rekja til útkalls í gær þegar starfsfólk Sorpu í Kópavogi óskaði eftir aðstoð vegna ógnandi framkomu manns. Sá reyndist í mjög annarlegu ástandi og snöggreiddist við talningu starfsmanns Sorpu á endurvinnanlegum drykkjarílátum. Hélt maðurinn því fram að hann hefði fært fram fleiri ílát en starfsmaðurinn taldi. Hann ógnaði starfsfólki með hníf en hélt að lokum sína leið.
Maðurinn yfirgaf svæði Sorpu á bifreið en lögregla hafði upp á honum við verslun skammt hjá. Þegar lögregla mætti þangað reiddi maðurinn á loft hníf, ógnaði lögreglumönnum með honum og hljóp á eftir þeim. Lögreglumenn beittu svonefndum varnarúða, þ.e. piparúða, á manninn og yfirbuguðu hann. Þorvaldur J. Sigmarsson, varðstjóri svæðisstöðvar lögreglu höfuðborgarsvæðisins í Kópavogi, segir málið þó frekar rannsakað sem brot gegn valdstjórninni en tilraun til manndráps.
Í kjölfar handtökunnar var gerð leit í íbúð mannsins þar umrætt vopnabúr fannst. „Hann virðist vera einhvers konar byssusafnari,“ segir Þorvaldur og vísar til þess að maðurinn sé skráður fyrir hluta vopnanna.
Engir fleiri hafa þó verið né verða handteknir í tengslum við umrætt mál. Málið telst að mestu upplýst, þó enn eigi eftir að rannsaka byssurnar og fá úr því skorið hvað skráð er og hvað ekki. Og þá hvort hinar séu þýfi. Þó er fullvíst að ein þeirra, mjög öflug og alsjálfvirk haglabyssa, er ekki skráð. Þá var þarna einnig loftskammbyssa, stórir ólöglegir hnífar og byssustingur.
Ekki verður krafist gæsluvarðhalds yfir manninum en í samráði við ættingja verður hann vistaður á viðeigandi stofnun. Talið er ljóst að maðurinn ætlaði sér ekki að nota skotvopnin í annarlegum tilgangi.
Stutt er síðan lögreglan lagði hald á fjögur skotvopn og um fimmtíu hnífa í tengslum við skotárás í Bryggjuhverfinu í Reykjavík.