Skíðafólk fyrir norðan mætti kátt í Hlíðarfjall klukkan tíu í morgun þegar þar var opnað, fyrsta daginn í vetur. Að sögn starfsmanna er stemningin frábær í fjallinu, færið gott, aðeins farið að élja en annars logn. Skíði voru þó ekki eini útbúnaðurinn sem fólk mætti með því snjóþotur og snjóbretti eru allt eins vinsæl til að renna sér á.
Opið er í Hlíðarfjalli til klukkan fjögur í dag. Lokað verður mánudaga og þriðjudaga næstu tvær vikurnar, en opið hina dagana, en þegar skólafríin byrja verður opið alla daga vikunnar.
Skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli á Dalvík var opnað núna klukkan tólf en þar var fyrsti opni dagur vetrarins í gær. Þar var komið nokkuð af fólki í brekkurnar strax á fyrsta tímanum. Snjókoma er þar núna ofan á talsvert mikinn snjó og færið gott.