Gangi áætlanir laxeldisfyrirtækjanna Fjarðalax og Arnarlax um stórfellt laxeldi í fjörðunum á sunnanverðum Vestfjörðum eftir skapast hundruð starfa við fiskeldi, vinnslu og þjónustu.
Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að nokkrir tugir starfa eru nú þegar við þær fiskeldisstöðvar sem starfandi eru á sunnanverðum Vestfjörðum, einkum í Tálknafirði, þar sem löng hefð er fyrir fiskeldi og reynslumiklir starfsmenn og þjónustufyrirtæki. Flestir starfa hjá Fjarðalaxi en fyrirtækið er með sjókvíaeldi í þremur fjörðum og vinnslu á Patreksfirði.
Arnarlax áformar uppbyggingu laxeldis í Arnarfirði og bíða forsvarsmenn fyrirtækisins óþolinmóðir eftir leyfum. Laxinn verður unninn í verksmiðju á Bíldudal. Á bak við bæði fyrirtækin standa fyrirtæki og einstaklingar sem hafa reynslu af fiskeldi og aðgang að mikilvægum mörkuðum.
Atvinnulíf er einhæft á þessum litlu stöðum og kærkomið að fá ný störf og valmöguleika um vinnustað.