Stjórnvöld í viðræðum við Nubo

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Íslensk stjórn­völd eiga í viðræðum við kín­verska fjár­fest­inn Huang Nubo um með hvaða hætti hann geti fjár­fest í ís­lenskri ferðaþjón­ustu. Þetta kom fram í viðtali við Katrínu Júlí­us­dótt­ur iðnaðarráðherra í kvöld­frétt­um RÚV.

Iðnaðarráðuneytið vill leiðbeina hon­um í gegn­um ís­lenskt lagaum­hverfi en haft hef­ur verið sam­band við hann í gegn­um fjár­fest­ing­ar­stofu. „Það sem framund­an er er að við mun­um ræða sam­an á næst­unni um það með hvaða hætti hann get­ur komið hingað til lands með fjár­fest­ing­ar í ferðaþjón­ustu“ sagði Katrín í viðtal­inu.

Ögmund­ur Jónas­son inn­an­rík­is­ráðherra, sem komst að þeirri niður­stöðu í nóv­em­ber að Nubo væri óheim­ilt að kaupa Grímsstaði á Fjöll­um, sagði í sam­tali við mbl.is að sér væri ekki kunn­ugt um þess­ar fyr­ir­ætlan­ir iðnaðarráðuneyt­is­ins.

„Ef hann [Huang Nubo] er núna að óska eft­ir jarðakaup­um sem ein­stak­ling­ur þá er það nýtt í stöðunni, en hefði ekki breytt hinu að mínu mati að und­anþágu­beiðni frá þeirri al­mennu reglu sem er við lýði að jarðar­kaup ein­stak­linga utan EES eru ekki heim­il. Hins­veg­ar er ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um heim­ilt að fjár­festa í at­vinnu­lífi á Íslandi og ef þetta snýst um það þá er ekk­ert nema gott um það að segja,“ seg­ir Ögmund­ur.

„Við höf­um dæmi þess að fyr­ir­tæki hafi farið á bak við hina al­mennu laga­reglu með því að leggj­ast ofan í skúff­ur inn­an EES-svæðis­ins og vísa ég þar til Magma-fyr­ir­tæk­is­ins sem komst með slík­um hætti inn í fjár­fest­ing­ar hér. Ég ætla að menn séu ekki að hugsa um eitt­hvað slíkt en auðvitað eru fjár­fest­ar vel­komn­ir hingað ef þeir gera það í sam­ræmi við ís­lensk lög,“ seg­ir Ögmund­ur að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert