Fangar ekki sammála fangelsismálastjóra

Frá Litla Hrauni.
Frá Litla Hrauni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stjórn Afstöðu, félags fanga, tekur undir það með allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis um að ekki sé mikil skynsemi í þeim hugmyndum sem Páll Winkel, forstjóri fangelsismálastofnunar hefur talað fyrir varðandi það að þörf sé á miklum fjölda rýma í öryggisfangelsi á Hólmsheiði. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Afstaða hefur sent frá sér.

„Byggja þær hugmyndir á að fyrirhuguðu öryggisfangelsi á Hólmsheiði sé ætlað að leysa kvennafangelsið í Kópavogi og fangelsið að Skólavörðustíg af hólmi. Það er eindregin skoðun Afstöðu að ekki sé þörf á fleiri öryggisfangelsum í íslensku fangelsiskerfi, heldur er þvert á móti skortur á opnum úrræðum, þó vissulega hafi fangelsið að Bitru leyst þar nokkurn vanda. Mikinn minnihluta íslenskra fanga þarf að vista í dýru öryggisfangelsi, heldur eru opin úrræði mun hagkvæmari og betur fallin til betrunar. Öryggisfangelsið Litla-Hraun er því alveg fært um að anna öllum þörfum fangelsiskerfisins um öryggisvistun sem þörf er á, og þá fjármunum í öryggisrými á Hólmheiði betur varið í fleiri pláss í opnum fangelsum.

Stjórn Afstöðu fellst á það með Páli Winkel, að æskilegt væri að útbúa gæsluvarðhalds-einingu á höfuðborgarsvæðinu, svo auka megi hagræði vegna aksturs lögreglu, lögmanna og annarra þeirra sem koma að rannsókn mála.

Hins vegar er rétt að taka fram að sé það ætlun forstjóra Fangelsismálastofnunar að vista saman í hinni nýju byggingu á Hólmsheiði bæði gæsluvarðhaldsfanga og dæmda menn, líkt og hingað til hefur viðgengist á Litla-Hrauni, þá er slíkt klárt brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg réttindi. Hefur fólk á borð við Eirík Tómasson hæstaréttardómara og Þórhildi Líndal lögfræðing þegar bent á þessa brotalöm.

Hvað varðar hlutverk Hólmsheiðarfangelsis sem komufangelsi, vill Afstaða taka undir með þeim fjölmörgu sem bent hafa á að í stað þess að byggja nýtt komufangelsi á Hólmsheiði, væri nær að efla það greiningarstarf sem vísir er að á Litla-Hrauni, með aðkomu þeirra sem þar starfa í geð- og heilbrigðismálum, skólastarfi og öðrum sérfræðingum sem að mati fanga koma. Nokkurn tíma tekur fyrir einstaklinga að ná andlegu jafnvægi eftir það umrót sem fylgir komu í fangelsi, og sérstaklega fyrir þá sem glímt hafa við vímuefnavanda, þannig að með eflingu þessa meðferðarstarfs, sálfræðiþjónustu og námsráðgjafar sem fyrir er á Litla-Hrauni er það fangelsi vel til þess fallið að þjóna sem komufangelsi og ekki þörf á sérstakri byggingu á Hólmsheiði fyrir slíkt.

Íslenskir kvenfangar hafa ekki haft sömu möguleika til betrunar og aðrir fangar, vegna takmarkaðra aðgengis til náms sem og þjónustu almennt. Afstaða fagnar því þeirri hugmynd að hugað sé sérstaklega að þessum hópi fanga, en hafnar því jafnframt að það úrræði felist í fangelsi að Hólmsheiði, heldur færi betur á því að kvenföngum yrði fundinn staður í grennd við þá þjónustu sem byggð hefur verið upp í kringum fangelsi á Suðurlandi. Hafa ýmsir aðilar bent á að með lokun Sogns sem réttargeðdeildar hafi myndast möguleiki á að nýta húsakost þar fyrir afplánun kvenna, enda henti byggingarnar vel til slíks.

Í kjölfar ummæla Páls Winkel í fjölmiðlum um að hann skilji ekki að fram þurfi að fara umfjöllun um málið á vettvangi stjórnmála, þá vill Afstaða taka undir með Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formanni fjárlaganefndar, að allt of lítil umræða hafi átt sér stað um hvernig best sé staðið að málinu, og huga þurfi að fleiri þáttum en Páll Winkel hafi hingað til lagt áherslu á.

Á þeim nótum er rétt að minna á að áherslu fangelsiskerfisins er ætlað að vera á betrun. Sú betrun felst í að skila einstaklingum úr fangelsi út í samfélagið sem gegnum og góðum þegnum. Þar er menntun einn mikilvægasti liðurinn, ásamt andlegri uppbyggingu, m.a. gegnum geð- og heilbrigðisþjónustu. Nær er því að minnka fjármuni til steypu á Hólmsheiði og hlúa heldur að því starfi sem vísir er að á Litla-Hrauni."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert