Sakar Ögmund um dylgjur

Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra undrast ummæli Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra og að hann skuli dylgja um að menn ætli sé að leiðbeina fjárfestum fram hjá íslenskum lögum. Þetta kom fram í kvöldfréttum Útvarpsins en þar vísar Katrín til orða Ögmundar í fréttum RÚV í hádeginu.

Íslensk stjórnvöld eiga í viðræðum við kínverska fjárfestinn Huang Nubo um með hvaða hætti hann geti fjárfest í íslenskri ferðaþjónustu. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sagði í fréttum Sjónvarps í gær að stjórnvöld ætluðu að leiðbeina Nubo í gegnum íslenskt lagaumhverfi svo hann gæti fjárfest hér á landi. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í hádegisfréttum útvarps í dag að hann ætti erfitt með að átta sig á því hvað Katrín ætti við með þessum ummælum.

„Við verðum náttúrlega að gæta okkur á því að fara ekki að leiðbeina mönnum fram hjá íslenskum lögum eins og því miður virðist hafa verið gert í Magma-málinu hér fyrir nokkrum misserum þar sem einstaklingur utan hins evrópska efnahagssvæðis lagði sig ofan í sænska skúffu, bjó til skúffufyrirtæki og komst þannig yfir auðlindir á Reykjanesinu. Ég er ekki með neinar getgátur um að menn ætli að fara þessar leiðir en ég vara náttúrlega við slíku.“

Iðnaðarráðherra er afar ósáttur við þessi ummæli Ögmundar, samkvæmt fréttum RÚV í kvöld.

„Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð undrandi á þeim, að hann skuli ætla okkur að gera eitthvað slíkt og skuli ákveða að dylgja um slíkt án þess að tala við kóng eða prest áður en það er gert. Og mér fannst það ekki sanngjarnt hjá félaga mínum Ögmundi Jónassyni í ríkisstjórn að gera það. En það er kannski ekkert skrítið að hann átti sig ekki á því hversu opið Ísland er í raun og veru fyrir fjárfestingum í atvinnustarfsemi enda kannski erlendar fjárfestingar ekki beint verið á hans sviði hingað til, eins og menn vita.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert