Segir sig úr VG

Brynja Halldórsdóttir
Brynja Halldórsdóttir

Brynja Halldórsdóttir, fyrrverandi formaður Ungra Vinstri-grænna á höfuðborgarsvæðinu, hefur ákveðið að segja sig úr flokknum.

Segir hún úrsögnina tilkomna vegna mikillar og langvarandi óánægju. Hún hafi gefist upp á að breyta þeirri stefnu sem flokksforystan hafi tekið.

Segir Brynja að þar vegi þyngst hrossakaup VG og Samfylkingar um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. „Þrátt fyrir að  grasrót VG sé og hafi alltaf verið á móti aðild og meirihluti þjóðarinnar, var farið af stað í eina tímafrekustu, kostnaðarsömustu og langtum  andlýðræðislegustu vegferð í manna minnum. ESB reglugerðir og tilskipanir streyma í gegnum þingið á ógnarhraða, mun hraðar en árin 1994-2009 og Alþingi samþykkti nýlega 600.000.000 króna aðlögunar „styrk“ frá Evrópusambandinu.

Á síðasta landsfundi flokksins, var tillögu frá undirritaðri vísað frá með tæpum meirihluta um að VG hafnaði umræddum aðildarstyrkjum. Var sú tillaga felld hálftíma eftir að þessi sami flokkur samþykkti ályktun þess efnis að hafna bæri allri aðlögun að Evrópusambandinu áður en til aðildar kæmi.  

Einnig verður sífellt erfiðara að verja stórfelldan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu á sama tíma og bönkum og illa reknum fyrirtækjum er bjargað á kostnað almennings til þess að þau geti haldið óráðsíunni áfram.Glórulausar skattahækkanir sem bitna mest á almennum launþegum íþyngir hagkerfið og er ítrekuð hættuleg aðför að öllu atvinnulífi í landinu. Einnig er hægt að nefna ákvarðanir sem tengjast virkjun Þjórsár og Magma-hneykslinu sem samræmast ekki hugsjónum undirritaðrar," segir meðal annars í yfirlýsingu sem Brynja hefur sent fjölmiðlum.

Verkefni sem Brynja hefur unnið fyrir VG:

2009 - Skipaði 7. sæti á lista Vinstri-grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður í alþingiskosningum.

2008-2009: Formaður Ungra Vinstri-grænna á höfuðborgarsvæðinu.

2007-2008: Formaður Ungra Vinstri-grænna í Reykjavík.

2006-2007: Varaformaður Ungra Vinstri-grænna í Reykjavík.

2005-2006: Meðstjórnandi í landsstjórn Ungra Vinstri-grænna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka