Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að ríkisstjórnin verði að segja með skýrum hætti hvað hún ætli að gera. Hann segist ekki vita hvort hann sé á útleið úr ríkisstjórninni. Þetta kom fram í máli Árna Páls í Silfri Egils í dag.
Hann segir að það yrði stórhættulegt að sameina efnahags- og viðskiptaráðuneytið öðrum ráðuneytum eins og nú er rætt um að sameina það fjármálaráðuneytinu. Að sögn Árna Páls þarf að gera nýjan stjórnarsáttmála ef ráðuneytið verður lagt niður þar sem í honum er kveðið á um slíkt ráðuneyti.
Árni Páll segir að ef fólk vilji losna við hann sé honum alveg sama en honum finnist það dálítið dýru verði keypt með því að leggja niður efnahagsráðuneytið.
Hann segir að mjög margir í Vinstri grænum séu á sama máli og Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og telur Árni Páll að ekki sé rétt að velja ráðherra vegna hans persónulegu skoðana.
Árni Páll telur að ágreiningur sinn við innanríkisráðherra, Ögmund Jónasson, í máli Huangs Nubos snúi að því að Huang var aldrei boðaður á fund í innanríkisráðuneytinu þar sem rætt væri við hann um hvað lögin fælu í sér og honum veittar leiðbeiningar í málinu.