BBC sakað um ýkjur um Kötlugos

Katla nýtur þess vafasama heiðurs að vera eitt hættulegasta eldfjall …
Katla nýtur þess vafasama heiðurs að vera eitt hættulegasta eldfjall landsins. Rax / Ragnar Axelsson

Breska útvarpið, BBC, er sakað um að ýkja hættuna af eldgosi í Kötlu. Varðar málið m.a. vangaveltur um að Kötlugos geti komið af stað miklum flóðum í þeim ríkjum sem liggja að Atlantshafinu vegna bráðnunar íss þegar hraunelfurin ryður sér braut.

Málinu er slegið upp sem aðalfrétt á breska umhverfisvefnum Click Green og er meðal annars vitnað í Jón Frímann, sem er áhugamaður um jarðskjálfta og eldfjöll, um að BBC hafi gerst sekt um ýkjur. 

„Í fréttinni sem málið varðar [og birtist á vef BBC] er því haldið fram að Kötlugos muni hafa alþjóðleg áhrif. Þetta eru að mínu áliti ekkert nema ýkjur,“ segir Jón Frímann.

Blaðakonan Jane O'Brien var höfundur greinar BBC en þar hafði hún meðal annars eftir Ford Cochran, sérfræðingi tímaritsins National Geographic um Ísland, að eldgos í Kötlu gæti valdið hungursneyð víða um heim, líkt og þegar Skaftáreldar ollu hremmingum í Evrópu á sínum tíma. Tók Cochran fram að auðvitað vonaðist hann til að svo færi ekki.

Þekkja Íslendingar áhrif gossins sem Móðuharðindin sem eru einhver erfiðasti tíminn í sögu þjóðarinnar.

Frétt Click Green má nálgast hér.

Meðal heimildarmanna BBC um Kötlugos er Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem lýsti því yfir þegar gosið í Eyjafjallajökli stóð yfir í fyrra að það væri aðeins „æfing“ fyrir stórgos í Kötlu, líkt og rifja má upp með því að horfa á þennan viðtalsbút hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert