Ekki talsmaður skyndiákvarðana

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra telur að það sé ekki skynsamlegt að taka skyndiákvörðun um að slíta aðildarviðræðunum að Evrópusambandinu. „Ég er ekki talsmaður einhverrar taugaveiklunar eða skyndiákvarðana í þeim efnum,“ sagði Steingrímur í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Hann segir að það þurfi að skýra til framtíðar hvernig tengslum Íslands við ESB verði háttað, en þau verði vonandi mikil.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, beindi fyrirspurn um aðildarviðræðurnar til Steingríms. Hann sagði að ástandið í Evrópu væri alvarlegt og það minnti um margt á aðstæður á Íslandi í aðdraganda efnahagshrunsins árin 2007 og 2008. Sigmundur Davíð segir að Ísland verði að búa sig undir það ástand og bregðast við þeim aðstæðum sem séu mjög ljósar. Hann vísar öllu tali um taugaveiklun eða skyndiákvörðun á bug.

„Er það skynsamlegra að henda þessu máli algjörlega óútkljáðu án þess að við séum nokkru nær. Bara eitt, tvö ár inn í framtíðina og byrja svo upp á nýtt. Úr því sem komið er, er þá ekki gæfulegra að láta að minnsta kosti reyna á eitthvað af okkar grundvallarhagsmunum í viðræðum þannig að við séum einhverju nær,“ spurði Steingrímur. Svo að þjóðin geti kosið um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu þá verði menn að hafa eitthvað efnislegt í höndunum.

Steingrímur segir að menn fylgist grannt með því sem sé að gerast í Evrópu. „Ég geri líka ráð fyrir því að við vonum öll hið besta í þeim efnum, að evruríkjunum og Evrópusambandinu takist að leysa úr þeim mikla vanda sem þar er uppi án verulegra stóráfalla. Vegna þess að það verða litlar gleðifréttir fyrir Ísland ef þar fer allt á hinn verri veg,“ segir Steingrímur og benti á að 70% af útflutningsmörkuðum Íslands séu í Evrópu.

Það skipti því miklu máli fyrir Ísland hvernig málin þróast í Evrópu í efnahagslegu tilliti.

„Verði meiriháttar breytingar á eðli og inntaki samstarfs Evrópuríkjanna, sem spretti upp úr þessum hremmingum, þá er það nýtt og sjálfstætt mál sem eðlilega við skoðum. En fram til þessa er maður litlu nær um hver verður niðurstaðan,“ sagði Steingrímur ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka