Gert að afhenda fimm hunda

Harðar deilur um fimm hunda voru til lykta leiddar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Konu, sem lét taka hundana úr vörslu annarrar konu í desember á síðasta ári, var gert að skila þeim aftur.

Önnur konan keypti hvolpa af hinni en seljandinn hélt því fram að kaupandinn hefði aðeins greitt fyrir tvo þeirra og einnig brotið ákvæði í kaupsamningi.

Kaupandinn hélt því fram fyrir dómi, að seljandinn hefði staðið fyrir því, að ráðist var inn á heimili hennar í Grindavík með ofbeldi og löglegar eigur hennar teknar ófrjálsri hendi, án nokkurrar leyndar, fyrir framan son hennar.

Héraðsdómur segir, að óumdeilt sé að konan, sem höfðaði málið, hafi keypt fjóra af þeim fimm hundum, sem deilt sé um í málinu, af fyrirtækinu Hundagalleríi ehf. á árunum 2007 og 2008 þ.e. rakkann Dalsmynnis Dímon og tíkurnar Heiðbjörtu Rós, Flugu Dís og Freyju Dís. Hins vegar sé deilt um hvort hun hafi keypt tíkina Dísu Sól af fyrirtækinu eða þegið hana að gjöf frá þriðja aðila.

Þá sé óumdeilt að kaupverð hundanna var 180.000 krónur fyrir hvern hund eða samtals 900.000 krónur. Kaupandinn viðurkenni að skulda seljandanum enn hluta kaupverðsins en ágreiningur sé um hversu há skuldin sé.

Þá sé óumdeilt, að seljandinn lét taka alla hundana úr vörslum kaupandans þann 16. desember 2010, að hún hafi þá alla í sínum vörslum og hafi ítrekað neitað að afhenda þá.

Hins vegar hafi seljandinn ekki rift kaupsamningum vegna vanefnda kaupandans á greiðslu kaupverðsins eða vegna meints brots seljandans á banni við að skrá hundana og afkvæmi þeirra í hundaræktarfélagið Rex, sýna þá á vegum þess félags eða láta þá auka kyn sitt með hundum úr Rex. Féllst dómurinn því á kröfu kaupandans um að eignarréttur hennar yfir hundunum yrði viðurkenndur.

Var seljandinn dæmdur til að afhenda hundana að viðlögðum 10 þúsund króna dagsektum.

Í dómnum kemur fram, að konan sem keypti hundana haldi því fram að hún hafi ekki ritað nafn sitt á frumrit kaupsamninganna fimm og sé nafnritun hennar fölsuð. Hafi hún kært meinta fölsun til lögreglu en rannsókn málinu sé ekki lokið.

Eiginmaður og dætur seljandans skrifuðu á kaupsamningana sem vottar og staðfestu þær fyrir dómi, að þau hefðu verið viðstödd þegar kaupandinn skrifaði nöfn sín á þrjá af samningunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert