Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis áætlar að tekjur ríkissjóðs verði 1,5 milljörðum króna meiri á næsta ári en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram í október. Munar þar mest um 900 milljóna króna hækkun á áætlun um úttekt séreignarsparnaðar á árinu 2012.
Þá hefur nefndin lagt fram breytingartillögur, sem auka útgjöld ríkissjóðs um 522 milljónir króna. Samkvæmt þessu verður halli ríkissjóðs 20,7 milljarðar króna. Heildartekjur eru áætlaðar 522,9 milljarðar en heildargjöld 543,7 milljarðar á árinu 2012.