Fréttaskýring: Hæstiréttur bregður af venju í forsetakjöri

Hæstiréttur
Hæstiréttur mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Dómarar Hæstaréttar Íslands kusu sér fyrir helgi nýjan forseta réttarins og hefur kjörið vakið spurningar. Þannig fór að Markús Sigurbjörnsson verður forseti frá 1. janúar næstkomandi og Viðar Már Matthíasson varaforseti. Kjörtímabilið verður að þessu sinni til 31. desember 2016 en það var lengt úr tveimur árum í fimm fyrr á þessu ári. Spurningarnar tengjast þó síður kjörtímabilinu og lengd þess en heldur niðurstöðu kjörsins.

Lengi hefur verið viðhöfð sú regla að forsetaembættið hefur gengið milli manna í réttinum í ágætu samkomulagi. Eins og sjá má af meðfylgjandi töflu hefði því að öllu eðlilegu Garðar Gíslason átt að taka við embættinu um næstu áramót. Engar skýringar hafa hins vegar fengist á því hvers vegna horfið hefur verið frá venjunni og Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar, svaraði ekki fyrirspurn Morgunblaðsins um málið.

Ljóst er þó að kjörið er í höndum dómaranna sjálfra og fer fram kosning á fundi þeirra. Ætti því að ríkja samkomulag um breytinguna, að minnsta kosti meðal meirihluta dómara.

Lengt að ósk Hæstaréttar

Hugsanlegt er þó að breytingin tengist að einhverju leyti því að kjörtímabilið lengist úr tveimur árum í fimm. Var það gert með breytingum á lögum um dómstóla og frumvarp þess efnis samþykkt á Alþingi í febrúar sl. Var þá einnig samþykkt að fjölga dómurum Hæstaréttar.

Raunar var þó ekki mælt fyrir um lengra kjörtímabil í upphaflegu frumvarpi en við meðferð málsins hjá allsherjarnefnd var ákvæðinu bætt inn í, að ósk Hæstaréttar. Í greinargerð allsherjarnefndar með breytingatillögunni segir að fulltrúi Hæstaréttar hafi greint nefndinni frá því, að umfang embættisins muni aukast með fjölgun dómara og annars starfsfólks. Auk þess myndi lenging starfstíma forseta hafa í för með sér meiri festu í starfi viðkomandi forseta og meiri líkur á að hann gæti sinnt tímafrekari stjórnunarverkefnum.

Ekki var einhugur um þessa breytingu meðal þingmanna og tveir þingmenn Sjálfstæðisflokks, Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson, höfðu sig nokkuð í frammi vegna hennar. „Ég verð satt að segja að játa að mér finnst algjörlega skorta á rökstuðning fyrir þessari breytingu. Hún var ekki í frumvarpi því sem lagt var fyrir á þingi og sent út til umsagnar, var ekki í tillögum starfshópsins sem vann á vegum ráðuneytisins á síðasta ári og var ekki í frumvarpi um breytingu á dómstólalögum sem lagt var fyrir þingið og fékk umfjöllun í fyrravetur þótt það yrði ekki að lögum,“ sagði Birgir og sagðist ekki sannfærður um réttmæti breytingarinnar. „Þarna er með einhverjum hætti verið að breyta því og gefa því meira vægi eða sterkari stöðu – ég veit ekki hvernig á að túlka það – án þess endilega að það sé rökstutt sérstaklega.“

Róbert Marshall, þáverandi formaður allsherjarnefndar, svaraði Birgi þó með því að eftir að hafa skoðað málið væri ekki annað hægt en að fallast á sjónarmið réttarins „[U]mfang þessa starfs er að taka miklum breytingum. Það er að verða meira að vöxtum og þess vegna er gripið til þessa. Það er að tillögu réttarins sjálfs að þetta er gert á þennan veg.“

Forseti fer með agavald

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. dómstólalaga fer forseti með yfirstjórn Hæstaréttar. Hann stýrir meðal annars þeirri starfsemi Hæstaréttar sem er ekki hluti af meðferð máls fyrir dómi, skiptir verkum milli dómara og annarra starfsmanna og fer með agavald yfir þeim.

Forseti Hæstaréttar ber ábyrgð á rekstri réttarins og fjárreiðum og kemur fram af hálfu dómstólsins út á við, auk þess að gegna þeim sérstöku störfum sem mælt er fyrir um í öðrum lögum.

Þá sinnir hann dómstörfum jafnt og aðrir dómarar þrátt fyrir að sinna einnig starfi forseta réttarins.

Núverandi forseti Hæstaréttar er Ingibjörg Benediktsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert