Egill Einarsson, sem er einnig þekktur sem Gillz, mun ekki starfa á vegum fjölmiðlafyrirtækisins 365 á meðan lögreglan rannsakar ásakanir 18 ára gamallar stúlku á hendur honum og unnustu hans um nauðgun. Egill neitar sök og hefur falið lögmanni sínum að kæra stúlkuna fyrir rangar sakargiftir.
Málið var kært til lögreglu í síðustu viku og er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu með málið til rannsóknar. Fljótlega var nafn Egils nefnt opinberlega á vefmiðlum í tengslum við málið og brást Egill við með því að senda yfirlýsingu á fjölmiðla í tilefni þess að hann og unnusta sín hafi verið kærð til lögreglu vegna nauðgunar. Þar kemur m.a. fram að það sé refsivert að saka fólk ranglega um lögbrot. Ásakanirnar séu fráleitar og séu einvörðungu til að sverta mannorð sitt. Yfirlýsingu Egils í heild má sjá neðst í fréttinni.
Ari Edwald, forstjóri 365, segir í samtali við mbl.is að engir þættir með Agli séu nú í sýningu hjá 365. Stöð 2 hefur m.a. sýnt þáttaröð sem nefnist Mannasiðir Gillz og til stóð að frumsýna nýja þætti með Agli, sem nefnast Lífsleikni Gillz.
Ari segir að það hafi staðið til að frumsýna nýju þættina á næsta ári. Að öllum líkindum næsta haust. Í ljósi kærunnar á hendur Agli þá verði það að koma í ljós hvort þátturinn verði tekinn til sýninga eður ei.
„Auðvitað þarf að skoða það í ljósi þess hvernig þetta mál þróast. Þetta er mjög alvarlegt mál og alvarlegar ásakanir. Menn eru að sjálfsögðu mjög slegnir yfir þessu. Það er brýnast að það fái rétta og vanda meðhöndlun hjá þeim sem með fara,“ segir Ari.
Þá hefur Egill verið gestastjórnandi í þættinum FM95BLÖ, sem er í umsjá Auðuns Blöndals á útvarpsstöðinni FM957.
„Hann mun ekki starfa við útvarpsþátt á okkar vegum á meðan þetta mál er til athugunar,“ segir Ari spurður út í málið. Í raun muni Egill ekkert starfa á vegum 365 á meðan málið sé til rannsóknar. „Hann verður ekki í loftinu á meðan það er,“ segir Ari.
Yfirlýsing sem Egill sendi fjölmiðlum vegna málsins er svohljóðandi:
„Yfirlýsing í tilefni þess að ég og unnusta mín höfum verið kærð til lögreglu vegna nauðgunar.
Það er refsisvert að saka fólk ranglega um lögbrot. Það er jafnframt refsivert að hafa samband við handrukkara í þeim tilgangi að kúga fé út úr fólki. Þær ásakanir sem á mig hafa verið bornar eru fráleitar og engar líkur á að þær muni leiða til opinberrar ákæru. Tilgangurinn með þessum ásökunum er því augljóslega ekki að ná fram ákæru heldur einvörðungu að sverta mannorð mitt. Af tillitssemi við hlutaðeigandi mun ég ekki tjá mig meira um þessi mál opinberlega að svo stöddu. Ég hef falið lögmanni mínum að kæra viðkomandi fyrir rangar sakargiftir.“