Ögmundur: Hurð skall nærri hælum

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

„Það er auðvelt að kaupa Ísland með öllum gæðum þess þegar gjaldmiðillinn er veikur og kjarkurinn hjá sumum eftir því,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sem fagnar þingsályktunartillögu sem efnahagsráðherra hefur lagt fram um stefnu íslenskra stjórnvalda gagnvart erlendri fjárfestingu.

Ögmundur segir í pistli á heimasíðu sinni, sem ber yfirskriftina „Hurð skall nærri hælum!“ að í tillögu Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, sé boðuð grundvallarstefnubreyting að því leyti að í stað þess að opna á erlenda fjárfestingu í  orku og auðlindum sé áherslan á margbreytileika og nýsprotastarfsemi.

„Þetta er gott og jákvætt. Það er líka gott og jákvætt að í greinargerð er áhersla á að Íslendingar vilji að orkufyrirtækin og sjávarútvegsfyrirtæki séu í innlendri eign,“ skrifar Ögmundur.

Hann segir að það sé fráleitt að alhæfa um erlenda fjárfestingu. Að sínu mati verði Íslendingar að hafa tvennt í huga.

„Fyrra atriðið er þetta: Því meira sem eignarhald í atvinnurekstri er innlent, þeim mun betra. Það þýðir að arðurinn af honum fer inn í íslenskt hagkerfi en fer ekki úr landi. Þannig hefur arður af stóriðju streymt út úr íslenska hagkerfinu því eignarhaldið er erlent. Sama myndi að sjálfsögðu gerast ef eignarhaldið á sjávarútvegsfyrirtækjunum væri erlent.

Hitt atriðið sem máli skiptir er að fjárfesting sé í almennri efnahagsstarfsemi en ekki í auðlindum. Þar verður ekki auðveldlega til baka stigið,“ skrifar Ögmundur.

Í lok pistilsins hvetur Ögmundur landsmenn til að vera á varðbergi.

„Það er auðvelt að kaupa Ísland með öllum gæðum þess þegar gjaldmiðillinn er veikur og kjarkurinn hjá sumum eftir því. Hugsum ekki í mínútum, dögum og árum. Hugsum ekki með hliðsjón af stundarhagsmunum. Hugsum langt fram í tímann. Hugsum í öldum. Sagt er að einmitt það geri Kínverjar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert