Markaður með teiknimyndir af barnaníði hefur vaxið mikið á undanförnum árum, meðal annars hér á landi, en ekki er hægt að dæma menn fyrir vörslu slíks efnis eins og staðan er í dag. Það breytist ef Alþingi samþykkir frumvarp innanríkisráðherra sem gerir „barngervingu“ refsiverða.
Hulda Elsa Björgvinsdóttir, saksóknari hjá ríkissaksóknara, segir að slíkar teiknimyndir sjáist æ oftar í barnaníðsmálum og séu oftar en ekki mun ofbeldisfyllri en þegar um raunveruleg börn er að ræða. Þá sé á stundum erfitt að gera greinarmun á þeim og hefðbundnum ljósmyndum, svo líkar eru þær.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hún, að vegna þess hversu nátengdar teiknimyndirnar eru raunverulegu barnaníði sé eðlilegt að varsla þeirra sé refsiverð og fagnar því frumvarpinu.