Námskeið í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis verður haldið í janúar og febrúar hjá Samfylkingarfélaginu í Reykjavík. Leiðbeinandi verður Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins og utanríkisráðherra. Námskeiðið er tíu klukkustundir að lengd, er kennt á fimm kvöldum og aðeins fyrir félagsmenn í Samfylkingunni.
Kjartan Valgarðsson, formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, segir að það sé eftirspurn meðal flokksfélaga að kynna sér skýrsluna betur heldur en nokkur maður hefur haft tök á. „Það þykjast allir vita að skýrslan sé mjög merkileg og vel unnin. Hún segir okkur mikið um samfélagið og það er hægt að læra af henni. Okkur finnst skylda okkar að halda vandað námskeið um efni hennar,“ segir Kjartan.
Nú er um eitt og hálft ár síðan skýrslan kom út og aðspurður segir Kjartan að slíkt námskeið hefði átt að halda fyrir löngu. „Við erum líka að reyna að brjótast út úr meðvirkniástandi í kringum skýrsluna, okkur finnst eins og hún hafi ekki hlotið þann sess sem henni ber. Okkar ósk er sú að flokksfélagar geti kynnt sér hana til hlítar á tíu klukkutíma námskeiði og geti haft betra gripsvit á henni. Það eru margir sem eiga hana en fáir sem hafa lesið hana.“