SÁÁ leitar eftir aðstoð

Staðarfell í Dölum
Staðarfell í Dölum

Samkvæmt samningum SÁÁ við ríkið er samtökunum ætlað að innheimta hjá sjúklingum greiðslur vegna fæðis og húsnæðis í eftirmeðferð á Vík og Staðarfelli og gjöld vegna göngudeildarmeðferðar. Hafa samtökin ákveðið að leita eftir aðstoð landsmanna vegna fjárskorts.

„Við getum ekki annað en beðið landsmenn um aðstoð," segir Gunnar Smári Egilsson, formaður SÁÁ í tilefni af söfnun í Styrktarsjóð SÁÁ, í fréttatilkynningu.

„Það hefur þrengt svo að tekjum samtakanna að þau geta ekki lengur greitt fyrir hlut þeirra sjúklinga sem geta ekki greitt fyrir áfengis- og vímuefnameðferð sína. Þess vegna biðjum við landsmenn um að styrkja fátæka alkóhólista svo þeir fái notið sömu þjónustu og aðrir landsmenn."

Styrktarsjóður SÁÁ var stofnaður fyrir þremur árum. Tilgangur hans er að styrkja fátæka alkóhólista svo þeir geti notið sjúkraþjónustu og meðferðar á vegum SÁÁ.

Á næstunni verður send út valkrafa í heimabanka allra landsmanna á aldrinum 30 til 70 ára með beiðni um 2000 króna framlag í sjóðinn. Einnig verða valkröfur sendar á fyrirtæki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka