„Það er ákvörðunaratriði SA og ASÍ ef menn telja að það þurfi að segja upp samningunum, það þarf að taka um það sérstaka ákvörðun. Það er fyrst og fremst Alþýðusambandið sem er að sækja á um þetta mál. Við erum ekki að sækja það en við skiljum alveg þeirra afstöðu af því að þetta var það sem við töldum að væri útkoman,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um þau áform ríkisstjórnarinnar að skerða hækkun bóta almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga.
„Þetta var nú rætt töluvert í vor við gerð kjarasamninganna og við hjá SA vorum í sjálfu sér ekkert hrifin af því að bæturnar hækkuðu eins og lægstu launin. Við töldum muninn milli bóta og launa of lítinn. Hinsvegar varð þetta niðurstaðan að bæturnar myndu hækka eins og lægstu launin og við skildum yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar með þeim hætti og þannig var þetta framkvæmt í sumar. Við höfðum ekki reiknað með því að framkvæmdin núna yrði eitthvað öðruvísi. Við skildum það svo að ríkisstjórnin hefði ætlað sér að gera þetta með sama hætti allan tímann, það var aldrei rætt um annað þrátt fyrir að það hefði verið það sem við höfðum ekki kosið. Við getum tekið undir það með Alþýðusambandinu að við vorum með þennan skilning í vor,“ segir Vilhjálmur.
Alþýðusambandið sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem áform ríkisstjórnarinnar, um að skerða hækkun bóta almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga, setji sambandið í þá stöðu að til greina komi að segja upp kjarasamningum verði áform ríkisstjórnarinnar samþykkt á Alþingi.