Um 80 sveitabæir ekki með RÚV

Hluti landsmanna borgar fyrir RÚV án þess að ná útsendingunum.
Hluti landsmanna borgar fyrir RÚV án þess að ná útsendingunum. mbl.is/Árni Sæberg

Allir skattskyldir einstaklingar greiða fyrir not af Ríkisútvarpinu, jafnvel þótt þeir nái ekki útsendingum.   Um áttatíu sveitabæir á landinu lenda á svokölluðu skuggasvæði sem eru þau svæði sem útsendingargeisli sjónvarpsins nær ekki til. Ef tekið er mið af gervihnattasendingum fækkar þeim bæjum í um fjörutíu. Hliðrænt dreifikerfi sjónvarps nær til 99,9% íbúa landsins. Hljóðvarpssendingar RÚV nást um land allt og til næstu miða, að því gefnu að langbylgjan fylli þau göt sem óhjákvæmilega eru í FM- dreifingunni.  Tölur um þetta eru nokkuð breytilegar eftir því hver skilgreiningin er nákvæmlega og eru háðar nokkurri óvissu vegna búsetubreytinga.

Þetta kemur fram í svari Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um útsendingar Ríkisútvarpsins.

Skuggasvæðin er helst að finna fjarri alfaraleið,  til að mynda í löngum og afskekktum dölum. Þessi svæði eru afar strjálbýl og eru víðsvegar um landið. Ríkisútvarpið vinnur að því að styrkja FM-sendingar og er Vestfjarðaleið til sérstakrar skoðunar í því sambandi. RÚV fylgist vel með nýjungum í stafrænni hljóðvarpsdreifingu ásamt því að unnið er að undirbúningi stafrænna sjónvarpsútsendinga, en samkvæmt drögum að nýrri fjarskiptaáætlun er gert ráð fyrir að slökkt verði á hliðrænu dreifikerfi RÚV fyrir árslok 2014, segir í svarinu.

Það fer líka eftir bíltegund hvort útsendingar Ríkisútvarpið nást á þjóðvegi eitt. Sigmundur Ernir spyr á hve löngum kafla þjóðvegar 1 má ætla að útsendingar Ríkisútvarpsins náist ekki? Kemur fram í svari Katrínar að útsendingar Ríkisútvarpsins nást því sem næst um allan þjóðveginn. Upplifun hlustenda af dreifingunni getur verið mjög misjöfn, eftir því hvort þeir eru með RDS-viðtæki í bílnum eða ekki. RDS-viðtæki leita sjálfvirkt uppi útsendingar en án slíkra viðtækja reynist mörgum ókleift að finna útsendingar, sem eru þó til staðar.

Þeir sveitabæir sem ná ekki RÚV þurfa samt að greiða fyrir þjónustuna. Er það samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið ohf. en öllum einstaklingum, sem eru skattskyldir, ber að greiða sérstakt gjald sem rennur til RÚV. Undanþegnir gjaldinu eru einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það gjald fellt niður.

Ekki er um marga einstaklinga að ræða sem eru undanþegnir sérstöku gjaldi skattstjóra og ná ekki útsendingum RÚV.

Sjá á vef Alþingis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert