Gagnrýnir framkomu í garð ráðherra harðlega

Atli Gíslason
Atli Gíslason mbl.is/Ómar

Atli Gíslason, alþingismaður, segir framgöngu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, gagnvart Jóni Bjarnasyni og reyndar einnig Ögmundi Jónassyni vegna Grímsstaðamálsins og fyrri uppákomur vekja upp áleitnar spurningar. Þetta kemur fram í pistli sem þingmaðurinn ritar á vef Feykis.

„Ráðherra sjávarútvegsmála hefur látið vinna drög að frumvarpi til nýrra laga um fiskveiðistjórnun. Í stað þess að hefja málefnalega umræðu um þær tillögur hefur umræðan beinst að því hvort ráðherra hafi umboð til þeirra starfa.

Málið var yfir 100 vikur í samráðsferli ríkisstjórnarflokkanna án þess að árangur næðist. Nú hefur ráðuneytið tekið sér sjö vikur til að greiða úr þeirri umræðu og leggja fram vinnuskjöl og er þá sakað um seinagang. Vanstillt og vanhugsuð viðbrögð vegna málsins vekja upp spurningar,“ skrifar Atli.

Yfirlýsingar forsætisráðherra aumt og ódrengilegt yfirklór

Segir hann að viðbrögð forsætisráðherra og annarra vera vanstillt og vanhugsuð. „Ég satt best að segja reiknaði með að forsætisráðherra og aðrir sporgöngumenn hennar hefðu látið svo lítið að kynna sér efnisatriði vinnuskjalanna áður en þau létu gamminn geisa um meint óboðleg vinnubrögð. Að þau tjáðu sig um efni málsins en létu ekki reiði vegna afstöðu Jóns Bjarnasonar í ESB málinu ráða för og villa sér sýn.“

„Ég velkist ekki í vafa eftir að hafa verið þátttakandi í þessu leikriti, reyndar í aukahlutverki frá því 21. mars 2011, hvað sé óboðlegt í málinu. Yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur gagnvart Jóni Bjarnasyni eru lýðræðislega óboðlegar. Þær eru aumt og ódrengilegt yfirklór.

Þar ræður för óbeisluð og uppsöfnuð reiði í garð Jóns Bjarnasonar fyrir heiðarlega afstöðu hans gagnvart ESB-umsókninni. Jón Bjarnason hefur verið lagður í einelti af Samfylkingunni svo misserum skiptir og það án þess að formaður VG lyfti litla fingri honum til varnar,“ skrifar Atli hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert