Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði á Alþingi í dag, að ákveðið hefði verið á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun, að fresta gildistöku ákvæðis um hljóðupptökur á ríkisstjórnarfundum til 1. nóvember á næsta ári.
Vigdís sagði að komið hefði fram á fundinum í morgun, að lagaákvæðið hefði verið svo illa unnið að ákveðið hefði verið að leggja fram breytingu á því og breyta jafnframt gildistökuákvæði þess til 1. nóvember á næsta ári.
Sagði Vigdís, að athygli sín beindist að frumvörpum sem kæmu úr stjórnarráðinu. „Svona komum við með mál eftir mál inn í þingið og þau eru gerð að lögum af meirihlutanum, sem hér situr í þinginu, handónýt mál sem þarf svo að taka upp og það er iðulega hlutverk þingmanna að stunda hér lagabætur í stað þess að vera hér í efnislegri umræðu um brýn mál, eins og að koma atvinnulífi hér af stað og bjarga heimilum og fjölskyldum hér í landinu,“ sagði Vigdís.
Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður eftirlits- og stjórnskipunarnefndar, sagði að henni þætti Vigdís Hauksdóttir oft ótrúleg. Vigdís vissi vel, að tillaga um hljóðupptökur hefði ekki komið frá ríkisstjórninni heldur allsherjarnefnd þingsins, bæði frá stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum. Vigdís ætti að venja sig á að fara rétt með.
Vigdís sagði einnig, að svo mikill vandræðagangur væri vegna skýrslu um niðurstöður stjórnlagaráðs inni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að enginn vissi í raun hvað ætti að gera við skýrsluna.
Kallaði Vigdís skýrsluna olnbogabarn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og sagði að málið væri allt í upplausn. Nú ætti að senda skýrsluna í svokallað álagspróf, en á lögfræðimáli héti það að senda skýrsluna í lögfræðiyfirlestur. Búa ætti til enn einn hópinn utan þingsins til að lesa skýrsluna yfir.
Valgerður Bjarnadóttir sagði, að níu þingmenn sætu í ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þar af væru átta þingmenn sammála um það hvernig málsmeðferð varðandi skýrslu stjórnlagaráðs ætti að vera og að ræða ætti málið eins vel efnislega og unnt væri. Á næsta ári muni síðan koma fram frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga.