Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að Alþýðusamband Íslands hafi haft óþarflega hörð orð um þau áform stjórnvalda um að skerða hækkun bóta almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga í fjárlögum fyrir næsta ár.
„Mér finnst forseti Alþýðusambandsins hafa óþarflega stór orð og þeir, bæði í blaðaviðtölum og auglýsingum á dögunum. Það sem við leggjum áherslu á er að þessi heildarmynd sé skoðuð og við minnum á það, að í vor fórum við ríkulegustu mögulegu leið í útfærslu á þessu gagnvart bótakerfunum vegna þess að við vildum skila strax umtalsverðri kjarabót til þessa fólks og það gerðum við svo sannarlega," sagði Steingrímur í morgunþætti Rásar 2 í morgun.
Hann sagði, að valin hefði verið sú leið í fjárlögunum, að miða hækkun bóta við almennu launahækkunina á næsta ári. Skoða verði heildarmyndina, meðal annars að persónuafsláttur verði nú að fullu verðtryggður.
Alþýðusambandið sendi frá sér harðorða tilkynningu í gær vegna málsins þar sem fram kemur að umræddar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem muni fyrst og fremst bitna á öryrkjum, öldruðum og atvinnulausum, gangi gegn kjarasamningunum sem undirritaðir voru fyrr á þessu ári og þeirri spurningu varpað fram hvort ríkisstjórnin ætli sér að neyða sambandið til þess að segja upp samningunum.