Símaskráin fjarlægð úr verslunum

Egill Einarsson prýðir forsíðu Símaskrárinnar 2011 og er jafnframt meðhöfundur.
Egill Einarsson prýðir forsíðu Símaskrárinnar 2011 og er jafnframt meðhöfundur. mbl.is/Golli

Ákveðið hefur verið að fjarlægja Símaskrána 2011 úr verslunum Símans, en skráin hefur verið geymd í sérstökum stöndum í verslununum. Egill Einarsson, sem er einnig þekktur sem Gillz, prýðir forsíðuna. Hann og unnusta voru nýverið kærð til lögreglu fyrir að nauðga 18 ára gamalli stúlku.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, segir að símaskráin sé ekki í virkri dreifingu, en henni er fyrst og fremst dreift á vorin og á sumrin.

„En í ljósi þessa máls þá höfum við ákveðið að taka til hliðar símaskrárstanda sem hafa verið í nokkrum Símaverslunum,“ segir Sigríður og bætir við að þetta sé gert af virðingu við alla hlutaðeigandi.

„Við erum slegin yfir þessum fréttum. Við teljum að þetta mál sé harmleikur fyrir alla þá aðila sem málið varðar,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is. Menn verði að treysta því að málið fái réttláta meðferð fyrir dómstólum.

Líkt og fram hefur komið neitar Egill sök og hefur hann falið lögmanni sínum að kæra stúlkuna fyrir rangar sakargiftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert