Siv skammaði Vigdísi

Siv Friðleifsdóttir.
Siv Friðleifsdóttir. norden.org/Johannes Jansson

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi harðlega á Alþingi í dag ummæli, sem Vigdís Hauksdóttir, flokkssystir hennar, lét falla úr ræðustóli þingsins um fundarstjórn á Alþingi og forseta þingsins. „Heyr á endemi," sagði Siv um ummæli Vigdísar.

Verið var að ræða um fundarstjórn forseta en þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust þess að lokaumræðu um fjárlagafrumvarpið yrði frestað þar til fjárlaganefnd þingsins hefði átt fund með forustu Alþýðusambands Íslands um þær fullyrðingar ASÍ, að verið væri að hrekja sambandið til að segja upp kjarasamningum.

Vigdís sagðist hafa hitt fyrrverandi þingmenn að máli sl. föstudag og þeir hefðu sagt, að það væri fyrst og fremst framgöngu þess forseta, sem sæti í forsetastóli Alþingis hverju sinni, og þó fyrst og fremst forseta Alþingis, að kenna að oft liti út eins og um ringulreið væri að ræða á þinginu.  Á árum áður hefðu forsetar þingsins úrskurðað strax í álitamálum.

„Við sjáum öll að hér er aldrei úrskurðað í málum (...) og það er aldrei nein endanleg niðurstaða," sagði Vigdís.

Siv sagði að þetta væri algerlega fráleit skýring.

„Heyr á endemi," sagði Siv og sagði að þingmenn ættu að líta sér nær varðandi traust á Alþingi. „Hér falla ljót orð í garð þingmanna, milli þeirra og til annarra í samfélaginu. Hér eru frammíköll miklu meiri en nokkru sinni áður, þingmenn fara einu sinni ekki úr pontu þegar tími þeirra er liðinn og eru með stæla við forseta," sagði Siv.  „Þessu verður að linna," sagði hún og lýsti fullu trausti til forseta Alþingis. 

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist vilja þakka Siv fyrir þau drengilegu orð, sem hún lét falla að gefnu tilefni. Ólíðandi væri, að þingmenn þyrftu að sitja undir því, að borin væru skilaboð utan úr bæ frá fyrrverandi þingmönnum um það hvernig forseti þingsins ætti að haga störfum sínum.

„Að sitja undir því að hingað séu bornar kjaftasögur utan úr bæ í þennan ræðustól og þar með misnotaður þessi vettvangur sem héti fundarstjórn forseta," sagði Ólína og bætti við að Vigdís ætti að biðja forseta Alþingis afsökunar á framkomu sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert