Skatan er sterk í ár

Félagar í Lionsklúbbi Ísafjarðar við skötuna.
Félagar í Lionsklúbbi Ísafjarðar við skötuna. mynd/bb.is

„Við erum búnir með þrjár verkanir síðan í haust þannig að við stöndum okkar vakt,“ segir Kári Þór Jóhannsson, formaður Lionsklúbbs Ísafjarðar sem ásamt félögum sínum í klúbbnum verkar skötu í tonnavís. Skötusala er helsta fjáröflun klúbbsins og er sívinsæl.

„Fastakúnnarnir eru löngu byrjaðir að panta og menn eru byrjaðir að senda Íslendingafélögunum erlendis eins og undanfarin ár. Skatan fer á alla staði þar sem Íslendingar eru, þeir eru allmargir komnir á bragðið hjá Vestfirðingum. Eins er hún send út um allt land.“

Mikil aðsókn er í skötuna en Kári segir Lionsmenn passa upp á að eiga einnig til skötu fyrir heimamenn og fastakúnna. Margir leggja hönd á plóg til að fjáröflunin gangi sem best. „Við höfum alltaf notið liðsinnis HG og útgerða hér fyrir vestan. Við njótum góðs af þeirra góðmennsku og erum þeim afar þakklátir fyrir það.“

Aðspurður segir Kári að skatan sé sterk þetta árið. „Hún ilmar svo að það tók þrjá daga að ná ilminum úr nösunum,“ segir Kári og hlær. „Þetta er alvöru vestfirsk tindabikkja,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert