Yfir 20 stiga frost í kortunum

Hitaspá fyrir næsta sunnudag, nánar tiltekið klukkan 18.00 síðdegis. Myndin …
Hitaspá fyrir næsta sunnudag, nánar tiltekið klukkan 18.00 síðdegis. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands. Mynd/Veðurstofa Íslands

Veðurstofa Íslands spáir því að frostið fari niður fyrir 20 stig inn til landsins um næstu helgi. Er spáð allt að 24 til 28 gráðu frosts á sunnudag. Kuldametið var slegið árið 1918 þegar frostið fór niður í 38 gráður í Möðrudal.

Hitakortið, eða öllu heldur kuldakortið, sem fylgir með þessari frétt sýnir spána fyrir næsta sunnudag.

Samkvæmt því verður frostið um 10 stig á höfuðborgarsvæðinu. Kaldast verður á Vatnajökli.

Til fróðleiks er þessi texti af vef Veðurstofu Íslands rifjaður upp en árið sem um er rætt er 1918, árið sem fyrri heimsstyrjöldinni lauk og frostaveturinn mikli gekk í garð á Íslandi:

„Mánudaginn 21. janúar 2008 eru liðin 90 ár frá því að kaldast var í Reykjavík og víðar á landinu frá því mælingar hófust. Í Reykjavík mældist frostið 24,5 stig en á Grímsstöðum 36 stig og í Möðrudal 38 stig. Á nokkrum öðrum stöðvum mældist frostið um 30 stig.

Eftir 1918 hefur hiti á veðurstöð aldrei farið niður fyrir -35°C. Mesta frost 21. aldarinnar til þessa er rétt rúm 30 stig. Meðalhiti í Reykjavík undanfarna viku er um -2°C en á Grímsstöðum um -7°C.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert