Allir ráðherrastólar undir

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að einstakir ráðherrar sitji ekki sem slíkir ef þeir hafi ekki stuðning. Og þeir hafi stuðning á meðan þeir sitji sem ráðherrar. Þannig svaraði hann spurningu í Kastljósi Ríkisútvarpsins um hvers vegna hann lýsti ekki yfir stuðningi við Jón Bjarnason.

Steingrímur sagði ennfremur að hann gæti lýst yfir stuðningi við alla sína ráðherra. Þegar hann var spurður að því hvers vegna hann hefði ekki gert það þegar málið var í hámæli sagðist Steingrímur hafa svarað á þann hátt sem honum þótti eðlilegast. Honum hefði þótt umræðan hvimleið og þætti enn.

Þegar kom að breytingum á ráðherraskipan og ráðuneytum sagði Steingrímur fátt. Hann sagði stjórnarflokkana halda því opnu að gera breytingar í ríkisstjórninni og á verkaskiptingu milli flokkanna. Þær hafi verið til umræðu og skoðunar til hliðar.

Hann sagði allt tal um að Jón Bjarnason og Árni Páll Árnason væru á leið úr ríkisstjórn vera getgátur og snakk. „Það á enginn neitt í þessum efnum. Það á enginn ráðherrastól og það eru allir undir,“ sagði Steingrímur og einnig að hann áskildi sér rétt til að gera hvaða þá tillögu sem hann teldi besta hverju sinni.

Hvað varðaði ráðuneytin sagði Steingrímur að sameining ráðuneyta í velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti hefði gefist vel. Mikill áhugi væri fyrir því að styrkja umhverfisráðuneytið innan síns flokks, og þá breyta því í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þá væri enn verið að skoða stofnun atvinnuvegaráðuneytis.

Steingrímur vildi þó ekkert staðfesta og sagðist ekki ætla að úttala sig um slík mál í beinni útsendingu og fyrirfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert