Bæta hag útigangsfólks

Opinn fundur verður í Iðnó í hádeginu á morgun um …
Opinn fundur verður í Iðnó í hádeginu á morgun um mannréttindi útigangsfólks. mbl.is/Jim Smart

Á fundi borgarstjórnar í gær var ákveðið að verja 40 milljónum króna aukalega til að bæta hag útigangsfólks í borginni í vetur. Eftir áramót fer af stað samstarfsverkefni velferðarsviðs og lögreglu undir heitinu Borgarverðir sem miðar að því að auka þjónustu við þennan hóp.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að um sé að ræða tilraunaverkefni til eins árs. Það byggi á því að teymi fagfólks muni fara um götur borgarinnar alla daga og sjá til þess að þeir, sem ekki eiga í örugg hús að venda, komist í skjól, m.a. í svokallað Dagsetur. Samhliða stendur til að efla starfsemi setursins.

Á morgun kl. 12:05 mun mannréttindaráð Reykjavíkur standa fyrir opnum fundi í Iðnó. Yfirskrift fundarins er Mannréttindi útigangsfólks. Hugmyndin að umfjöllunarefni þessa árlega opna fundar kom að þessu sinni í gegnum samráðsvefinn Betri Reykjavík.

Margrét Sverrisdóttir, formaður mannréttindaráðs, setur fundinn og strax þar á eftir mun dr. Helga Þórey Björnsdóttir flytja erindi sitt Gatan; upplifun og reynsla heimilislauss fólks. Þar á eftir mun Ásdís Sigurðardóttir segja frá reynslu sinni í erindi sem hún kallar Gatan. Magðalena Kjartansdóttir frá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða fer yfir þjónustu borgarinnar og í lokin flytur Dr. Helga Sif Friðjónsdóttir erindið Skaðaminnkun í samfélagi skiptir máli. Í framhaldi af fundinum mun mannréttindaráð vinna tillögur um bætt mannréttindi þessa hóps.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert