Ekkert „doubledip" á ferðinni

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Golli

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag, þegar atkvæði voru greidd um lokaútgáfu fjárlagafrumvarpsins, að nýjar tölur Hagstofunnar um hagvöxt styrktu grundvöll og forsendur fjárlaga næsta árs.

„Allar hrakspár um að fjárlög þessa árs og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar myndu draga hér úr hagvexti og draga niður hagkerfið reyndust rangar. Hér er ekkert „doubledip" á ferðinni heldur þvert á móti einhver mesti bati í hagkerfi, sem finnst á Vesturlöndum," sagði Steingrímur.

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði hins vegar einkunnarorð fjárlagafrumvarpsins að það væri skattað og skorið niður í stað þess að hlúa að og byggja upp.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður fjárlaganefndar, sagði að með þessum fjárlögum stuðlaði hin norræna velferðarstjórn að sjálfbærri þróun í efnahagsmálum, velferðarmálum og umhverfismálum. 

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að allt tal um að verið væri að auka framlög til velferðarkerfisins væri bara bull og vitleysa.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að frumvarpið vægi að grunnþáttum samfélagsins. Í því væri röng nálgun, of mikil skattlagning og of mikill niðurskurður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert