Fá ekki næga þjálfun í eineltismálum

Í rannsókninni segir að hvergi sé að finna skilgreiningu á …
Í rannsókninni segir að hvergi sé að finna skilgreiningu á einelti meðal barna í íslenskri löggjöf. Heiðar Kristjánsson

Kennarar gegna lykilhlutverki í allri vinnu gegn einelti en rannsóknir sýna að nýútskrifaðir grunnskólakennarar telja sig ekki fá nægilega menntun og þjálfun í eineltismálum í kennaranáminu. Svo virðist sem þá skorti færni til að koma auga á einelti og þeir eigi erfitt með að takast á við eineltismál þegar þau koma upp.

Þetta kemur fram í þverfræðilegri rannsókn á einelti meðal barna á Íslandi en niðurstöður hennar voru kynntar á málþingi í Öskju í Háskóla Íslands í dag. Höfundar rannsóknarinnar eru Daníel Reynisson, Hjördís Árnadóttir og Sjöfn Kristjánsdóttir.

Þá virðist vera skortur á sérhæfðri kennslu um eineltismál í kennaranáminu, bæði hvað varðar grunnskólakennara sem og íþróttakennara. Sérstaklega er mikilvægt að huga að sérhæfðri kennslu fyrir umsjónarkennara,“ segir í niðurstöðukafla rannsóknarinnar.

Gerðar eru tillögur að úrbótum og eru þær m.a. að auka kennslu í agamálum og samskiptafærni kennara, gera kennslu um einelti meðal barna að skyldufagi í kennaranámi og skyldum greinum og tryggja ða umfjöllum um og þátttaka í aðgerðum gegn einelti verði skilgreindur þáttur í starfsnámi og þar með verkefni á sviði foreldrasamskipta um einelti.

Fjallað er um hvað sé ábótavant í baráttunni gegn einelti meðal barna. Auk þess að ræða um skort á sérhæfðri kennslu um eineltismál í kennaranámi er m.a. talað um að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafi ekki verið nægilega vel kynntur fyrir börnum og þeim sem fara með málefni barna, að hvergi sé að finna skilgreiningu á einelti meðal barna í íslenskri löggjöf og að skortur sé á að allir skólar landsins hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt námskrá um að setja sér eineltisáætlanir.

Þá segir að nauðsynlegt sé að setja mun skýrari reglur um forvarnir og viðbrögð við einelti meðal barna sem á sér stað í íþrótta- og tómstundastarfi auk þess sem höfundar rannsóknarinnar segja það áhyggjuefni að tíðni eineltis virðist ekki hafa minnkað hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert