Fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár var samþykkt á Alþingi undir kvöld með 31 atkvæði gegn 3 en 23 þingmenn greiddu ekki atkvæði. Sex þingmenn voru fjarverandi.
Viðstaddir þingmenn stjórnarflokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, greiddu allir atkvæði með frumvarpinu en þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sátu hjá. Allir þingmenn Hreyfingarinnar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.
Niðurstaðan úr fjárlagagerð vetrarins er, að fjárlögin eru afgreidd með 20,7 milljarða króna halla en fjárlagafrumvarpið var lagt fram í októberbyrjun með 17,7 milljarða króna halla. Tekjur ríkisins verða 522,9 milljarðar króna á næsta ári en heildargjöld 543,7 milljarðar ef áætlun fjárlaganna gengur eftir.