Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði við atkvæðagreiðslu um fjárlögin á Alþingi undir kvöld að gert væri ráð fyrir að framkvæmdir við nýtt fangelsi hæfust í árslok. Gengi allt að óskum yrði fangelsið tekið í notkun í árslok 2014.
„Nú er okkur að takast að setja niður deilur sem staðið hafa samfleytt í hálfa öld um nýja fangelsisbyggingu fyrir landsmenn. Þessar deilur er nú verið að setja niður,“ sagði Ögmundur og síðar að því bæri að fagna. Hann sagði að allri hönnunar- og tæknivinnu í tengslum við fangelsið yrði lokið á þessu ári og framkvæmdir gætu þá hafist.
Hvað varðaði fjármögnun fangelsisins og hver borgaði brúsann sagði Ögmundur: Það gerum við, íslenskir skattgreiðendur.