Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa skuli frá máli þrotabús Milestone gegn Karli Wernerssyni. Héraðsdómur taldi að frestur til þess að höfða málið hefði verið liðinn en Hæstiréttur sagði það álitaefni sem taka ætti afstöðu til við efnismeðferð málsins.
Þrotabúið fór fram á það fyrir dómi að rift yrði greiðslum Milestone til Karls að fjárhæð rúmlega 504 milljónum króna, en samkvæmt rannsókn sem endurskoðendafyrirtækið Ernst & Young framkvæmdi fyrir skiptastjóra þrotabúsins fékk Karl fjölmörg lán frá félaginu á síðustu tveimur árunum fyrir gjaldþrot þess.
Forsaga málsins er sú að í nóvember 2009 hafi kröfulýsingarfrestur vegna Milestone runnið út. Á þeim tíma hafi lögin verið með þeim hætti að höfða varð riftunarmál innan sex mánaða frá því að fresturinn rann út. Í tilfelli þrotabús Milestone hafi það verið í maí 2010. Í apríl 2010 var lögunum breytt og fresturinn sem var sex mánuðir lengdur í eitt ár.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sagði m.a. svo um ákvæðið „Af ákvæði 148. gr. gjaldþrotalaganna, eins og henni var breytt með lögum nr. 31/2010, verður hins vegar ekki ráðið hvenær lagaskilin eru, þ.e. til hvaða mála/tíma tólf mánaða málshöfðunarfresturinn tekur. Ekkert er kveðið á um það í lögum hvernig taka eigi á málum sem eru til meðferðar þ.e. þegar umræddur sex mánaða frestur er hafinn. Því verður ekki ráðið af 148. gr. gjaldþrotalaganna eins og henni var breytt með lögum nr. 31/2010 að hún eigi að gilda um ágreining málsaðila. Verður því að ganga út frá því að málshöfðunarfresturinn hafi verið liðinn þegar mál þetta var höfðað.“
Hæstiréttur segir í dómi sínum að nokkurs misræmis hafi gætt í dómaframkvæmd um hverju það varði að mál sé höfðað að liðnum málshöfðunarfresti samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög og einkahlutafélög.
Þá segir rétturinn að ef frestur samkvæmt 110. gr. laga nr. 138/1994 - eða hliðstæðu ákvæði í 136. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög - leið án þess að félagið hefði uppi skaðabótakröfu á hendur stjórnarmanni var þess ekki kostur að gera slíka kröfu á öðrum vettvangi. „Þessi frestur var því í reynd sérstakur fyrningarfrestur þar sem krafan féll niður í lok hans, enda var ekki unnt að hafa hana uppi á annan hátt. Í ljósi þessa verður að líta svo á að álitaefni um hvort málshöfðunarfrestur þessi hafi verið liðinn við höfðun málsins sé atriði sem taka verður afstöðu til við efnisúrlausn þess, en geti ekki varðað frávísun málsins í heild eða hluta.“
Því var úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.