Kínverski auðmaðurinn Huang Nubo segir Vesturlanda búa sýna tvöfeldni í afstöðunni til fjárfestinga Kínverja á Vesturlöndum. Vesturlandabúar fari fram á að Kínverjar opni fyrir fjárfestingar í Kína en tortryggi um leið fjárfestingar þegar þær eiga að fara í hina áttina.
„Hinn vestræni heimur biður okkur um að opna kínverska markaðinn en þegar málið varðar auðlindir þeirra [Vesturlandabúa] loka þeir dyrunum á okkur,“ sagði Huang nýverið í samtali við fréttaritið Christian Science Monitor.
Ólíku saman að jafna
Ummælin teljast athyglisverð enda er hlutverk ríkisvaldsins í kínversku atvinnulífi gjörólíkt því sem gengur og gerist á Vesturlöndum.
Kínverskir embættismenn hafa þannig virka aðkomu að rekstri fyrirtækja og íhlutast til um áætlanir þeirra. Eru þessi tengsl talin mikill ókostur fyrir kínverskt efnahagslíf, meðal annars vegna þess að afskiptin leiði til sóunar og óhagkvæmni. Þá hefur mikið verið rætt um útlánagleði kínverskra ríkisbanka til reksturs sem oft á tíðum hefur ekki staðið undir sér.
Á Vesturlöndum eru þessi tengsl iðulega óbein og þá meðal annars í gegnum greiðasemi stjórnmálamanna við fyrirtæki sem stjórnmálaflokkar þeirra hafa hagsmuni af að eiga í samskiptum við.
Ætla í verslunarleiðangur til Evrópu
Fréttaritið hefur eftir kínverska viðskiptaráðherranum Chen Deming að á næsta ári muni kínversk sendinefnd fara um Evrópu og leita kauptækifæra hjá ríkjum sem eru tilbúin að losa um eignir til að grynnka á skuldafjallinu.
Svigrúm Kínverja til fjárfestinga er gríðarlegt. Á árunum 2003 til 2008 fjórtánfaldaðist erlend fjárfesting Kínverja og hefur hún tvöfaldast síðan síðara árið. Á hinn bóginn er erlenda fjárfestingin aðeins um 1% af samanlagðri erlendri fjárfestingu í heiminum. Til samanburðar er hlutfall Bandaríkjamanna af heildinni 22%.
Christian Science Monitor segir einnig frá því að nú sé deilt um það í brasilískum stjórnmálum hvort leyfa eigi Kínverjum að kaupa land til landbúnaðarnota í Brasilíu.
Kínverjar hafi keypt upp land í Rómönsku-Ameríku, Mið-Asíu og í Afríku til að anna þörf sinni fyrir hrávörur og landbúnaðarvörur. Á sama tíma heimili Kínastjórn ekki erlendum aðilum að kaupa land í Kína.