Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hefur ekki sagt sig úr flokknum. Þetta segir hún í samtali við fréttastofu RÚV.
Fram kemur á vef RÚV að Ingibjörg Sólrún segi það rangt að hún hafi sagt sig úr Samfylkingunni, líkt og haldið hafi verið fram á ýmsum vefmiðlum í dag.
Kjartan Valgarðsson, formaður Samfylkingarfélags Reykjavíkur, staðfestir hins vegar í athugasemd á blokki Egils Helgasonar á Eyjunni.is, að Ingibjörg Sólrún hafi sagt sig úr því félagi.
Kjartan vildi hins vegar ekkert tjá sig um málið þegar mbl.is hafði samband við hann vegna málsins.
Eyjan.is segir, að nokkuð hafi verið um það að undanförnu, að félagar í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík hafi sagt sig úr því en gengið yfir í Félag frjálslyndra jafnaðarmanna sem er annað aðildarfélag flokksins. Meðal þeirra sé Kristrún Heimisdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar en hún er nú aðstoðarmaður Ârna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra.